Bent á samskiptaleysi og trúnaðarbrest

Capacent hefur skilað úttekt á rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs. Bæði framkvæmdastjóri og …
Capacent hefur skilað úttekt á rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs. Bæði framkvæmdastjóri og stjórnarformaður hafa hætt störfum. mbl.is/RAX

Samskiptaleysi og trúnaðarbrestur á milli framkvæmdastjóra og stjórnar hefur leitt til þess að Vatnajökulsþjóðgarður hefur skuldbundið sig fram úr hófi, segir í úttekt ráðgjafafyrirtækisins Capacent á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, sem birt var í gær.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði eftir óháðri úttekt á rekstri þjóðgarðsins í janúar, en á árinu 2017 voru frávik raungjalda umfram rekstraráætlun um 50%, eða sem nemur rekstrarhalla upp á 190 milljónir króna.

Í úttekt Capacent segir berum orðum í niðurstöðum úttektarinnar að framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, Þórður H. Ólafsson, virðist hafa misst trú og traust starfsmanna.

Tilkynnt var á vef þjóðgarðsins í gær að Þórður og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefðu komist að samkomulagi um starfslok hans, en Þórður verður sjötugur í haust og fyrir lá að hann myndi láta af störfum á árinu vegna aldurs.

Dr. Ármann Höskuldsson stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs hefur einnig beðist lausnar, en í tilkynningu á vef þjóðgarðsins segir að það sé til að geta helgað sig aðalstarfi sínu við kennslu og rannsóknir í jarðfræði.

Magnús Guðmundsson, sem verið hefur forstjóri Landmælinga Íslands frá árinu 1999, var í gær settur tímabundið sem framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Guðrún Áslaug Jónsdóttir, núverandi varaformaður stjórnar hefur tekið við störfum stjórnarformanns þar til nýr stjórnarformaður verður skipaður af ráðherra.

Nota sitthvora lögmannstofuna

Í úttekt Capacent er dregin upp nokkuð dökk mynd af rekstrarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs og það sagt lýsandi fyrir þá stöðu sem stjórnun þjóðgarðsins sé komin í að stjórnarformaðurinn Ármann hafi fundið sig knúinn til þess að leita til annarrar lögmannsstofu en þeirra sem Þórður framkvæmdastjóri hafði leitað til varðandi lögfræðileg málefni.

„Undir eðlilegum kringumstæðum ættu stjórn og framkvæmdastjóri að vinna saman að hagsmunum þjóðgarðsins og engin þörf að vera fyrir það að stjórn hafi sérstakan lögmann í því að gæta sinna hagsmuna,“ segir í úttektinni.

Á fundum sem Capacent átti með stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum þjóðgarðsins kom fram að samstarf hafi verið erfitt á milli stjórnar, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra.

Kvartanir hafi gengið um víxl ýmist um yfirgang formanns eða aðgerðaleysi starfsmanna. Þá segir að lítið samband hafi verið á milli stjórnarformanns og framkvæmdastjóra frá því í nóvember 2017.

Flutningur höfuðstöðva óundirbúinn

Fjallað er um flutning höfuðstöðva Vatnajökulsþjóðgarðs frá Reykjavík og til Fellabæjar á Fljótsdalshéraði, en skrifstofan í Fellabæ var opnuð þann 21. mars í fyrra.

Capacent segir í úttekt sinni að í ljós hafi komið að flutningurinn hafi ekki verið nægilega undirbúinn og ljóst að heimild fyrir honum hafi ekki verið fyrir hendi.

Bent er á að staðan sé nú sú að framkvæmdastjóri og fjármálastjóri sitji á skrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík, á sama tíma og bókari þjóðgarðsins hafi starfsstöð í Fellabæ. Af þessu sé mikið óhagræði.

„Óháð staðsetningu miðlægrar skrifstofu væri heppilegra að koma því þannig fyrir að fjármálastjóri og bókari væru nær hvort öðru til að hægt sé að ná fram skilvirkara samtali um rekstur og sinna eftirliti,“ segir í úttektinni, en þar er einnig bent á að heppilegra hefði verið að stjórnin hefði tekið ákvörðun um staðsetningu skrifstofunnar, sama hvaða staður hefði orðið fyrir valinu, áður en farið var að leita að starfsfólki til að sinna umræddum störfum.

Vatnajökulsþjóðgarður - Rekstrar- og stjórnsýsluúttekt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert