Einn lést í umferðarslysi í Hestfirði

mbl.is

Einn lést og annar slasaðist þegar sendibifreið valt í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Neyðarlínunni barst tilkynning klukkan 15:53 í dag um alvarlegt slys og fóru lögreglumenn, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk á vettvang. Auk ökumanns var einn farþegi í bifreiðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Vegna alvarleika slyssins var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti annan aðilann á sjúkrahús í Reykjavík. Hinn lést af völdum áverka. Báðir aðilarnir eru íslenskir og hefur fjölskyldum þeirra verið tilkynnt um slysið.

Veginum var lokað meðan viðbragðsaðilar voru þar að störfum. Vegurinn verður opnaður á næstu mínútum.

Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Ekki er tímabært að gefa frekari upplýsingar um atvikið.

mbl.is