Hafna mengandi stóriðju í Helguvík

Meirihluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. F.v. Guðný B. Gunnarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, …
Meirihluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. F.v. Guðný B. Gunnarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Jóhann F. Friðriksson, Díana Hilmarsdóttir, Styrmir Jónsson og Friðjón Einarsson. Víkurfréttir/Páll Ketilsson

Nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar kynnti í hádeginu málefnasamning sinn fyrir kjörtímabilið. Í samningnum segir að mikil fólksfjölgun í Reykjanesbæ kalli á aukna þjónustu og hraða innviðauppbyggingu og að þeirri þörf sé brýnt að mæta.

Meirihlutinn stefnir þó að því að tryggja trausta fjármálastjórn og áframhaldandi niðurgreiðslu skulda. Í inngangsorðum málefnasamningsins segir að vonandi sjái brátt fyrir endann á fjárhagserfiðleikum sveitarfélagsins.

Stefnt er að því að Reykjanesbær nái lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022, en einnig hyggst nýr meirihluti lækka fasteignaskatt á kjörtímabilinu vegna mikillar hækkunar fasteignamats. Þá verður stofnaður „þverpólitískur aðgerðahópur“ sem mun hafa það hlutverk að rétta hlut Suðurnesja með tilliti til fjárframlaga frá ríkisvaldinu.

Hafna mengandi stóriðju

Mengandi stjóriðju í Helguvík er hafnað og nýtt framtíðarráð sveitarfélagins mun leita lausna, svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ verði ávallt í sátt við íbúa. Áfram verður þó unnið að atvinnuuppbyggingu í Helguvík, með það að leiðarljósi að nýta hafnarmannvirki þar. Þá ætlar meirihlutinn að fá óháða aðila til að gera úttekt á áhrifum mengandi starfsemi á lífsgæði bæjarbúa.

Meirihlutinn hafnar mengandi stóriðju og ætlar að láta gera óháða …
Meirihlutinn hafnar mengandi stóriðju og ætlar að láta gera óháða úttekt á áhrifum mengunar á íbúa. mbl.is/Árni Sæberg

Meirihlutinn segir að þrýsta þurfi á ríkisvaldið um að ráðast í nauðsynlegt viðhald á Reykjanesbraut og að klára þurfi tvöföldun hennar sem allra fyrst.

Reykjanesbær ætlar að byrja að kolefnisjafna starfsemi sína og hrinda í framkvæmd áætlun um skógrækt á kjörtímabilinu með það að markmiði að kolefnisjafna mengun frá flugumferð og bæta útivistarmöguleika bæjarbúa. Einnig verður leiða leitað til að draga úr plastnotkun í bænum.

Efla heilsugæsluna

Nýtt lýðheilsuráð Reykjanesbæjar mun hafa það sem fyrsta verkefni að fara í viðræður við heilbrigðisráðuneytið um eflingu heilsugæslunnar í Reykjanesbæ. Þá segir að unnið verði að samþættingu heimahjúkrunar og félagsþjónustu með það að markmiði að bæta þjónustuna.

Einnig á að undirbúa byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum og fylgja eftir umsókn bæjarins um byggingu þess til heilbrigðisráðherra. Meirihlutinn ætlar einnig að ráða lýðheilsufræðing til starfa og hann mun vinna að því með hinu nýja lýðheilsuráði að efla heilsu bæjarbúa.

Þá ætlar meirihlutinn jafnframt að vinna lýðheilsustefnu fyrir bæinn og auka stuðning við skipulagða hreyfingu barna.

Skoða kosti ungbarnaleikskóla

Nýr meirihluti mun stefna að því að öll börn komist í leikskóla við 18 mánaða aldur, auk þess sem „heildræn endurskoðun“ verður gerð á dagsvistunarúrræðum, til þess að koma til móts við sem flesta foreldra. Þá verða kostir ungbarnaleikskóla kannaðir og samvinna við dagforeldra efld.

Frá undirritun málefnasamningsins í hádeginu í dag.
Frá undirritun málefnasamningsins í hádeginu í dag. Víkurfréttir/Páll Ketilsson

Einnig verður auknum fjármunum forgangsraðað til leik- og grunnskóla, til þess að mæta auknu álagi og bæta starfsumhverfi í skólunum.

Stofnað verður nýtt  markaðs-, atvinnu- og ferðamálaráð sem á að hafa forgöngu um að laða að fyrirtæki í hátækniiðnaði. Einnig verða möguleikar í komum minni skemmtiferðaskipa til svæðisins skoðaðir.

Þá ætlar nýi meirihlutinn að leita leiða til að sporna við brottfalli ungmenna úr skipulögðu félagsstarfi og skipa starfshóp um framtíðarskipulag íþróttaðstöðu í bænum og stuðning við íþróttafélögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert