Laun ungra gætu hækkað vegna nýrra laga

Laun ungs fólks gætu hækkað á næsta ári með nýjum …
Laun ungs fólks gætu hækkað á næsta ári með nýjum lögum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Líkur eru á því að 18 og 19 ára einstaklingar sjái fram á launahækkun á næsta ári vegna nýrra laga sem óheimila mismunun vegna aldurs. Á mánudag síðastliðinn voru samþykkt lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og segir níunda grein þeirra laga að atvinnurekanda sé óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum meðal annars vegna aldurs í tengslum við laun og önnur kjör enda sinni þeir sömu eða jafnverðmætum störfum.

Bæði í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Eflingar og kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og VR er kveðið á um að starfsmenn sem eru 18 og 19 ára eigi aðeins rétt á 95% byrjunarlauna.

„Þetta er ekki í samræmi við lögin eins og þau eru útfærð og eins og þau eru skipuð,“ segir Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður í samtali við mbl.is.

Lára Júlíusdóttir bendir á að ungmenni verði sjálfráða 18 ára …
Lára Júlíusdóttir bendir á að ungmenni verði sjálfráða 18 ára og geti því gert vinnusamninga. Mynd/Af vef ll3.is

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem banna mismunun á grundvelli aldurs, taka gildi 1. júlí 2019. Fari það svo að hlutfallstaxti 18 og 19 ára einstaklinga standist ekki lög mun það þýða að laun þeirra gætu hækkað um 5,3% haldist launataxtar óbreyttir.

Ungt fólk er yngra en 18 í lögum

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi um jafna meðferð á vinnumarkaði er vísað til þess að sérstök ákvæði eru í lögum til þess að vernda ungt fólk á vinnumarkaði og að þau geti skapað lögmætan grundvöll til mismununar vegna aldurs.

Lára bendir hins vegar á að í vinnuverndarlögum er ungt fólk skilgreint sem yngra en 18 ára. „18 ára ertu sjálfráða og þar af leiðandi geturðu meðal annars gert vinnusamninga,“ segir hún.

Samkvæmt þessum nýsamþykktu lögum er það ekki brot að mismuna vegna aldurs séu færð fyrir því málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði. „Maður veltir fyrir sér hvort það séu einhver málefnaleg rök sem lúta að lögmætu markmiði sem geta legið því til grundvallar að laun þeirra sem eru orðnir 18 eða 19 ára eigi að vera önnur en þeirra sem eru tvítugir,“ segir Lára.

Hún segir rök um þroskamun ekki endilega eiga við þar sem aðrar breytur eins og starfsaldur, þekking og hæfni séu þá gerðar að jafnmikilvægum þáttum og lífaldri einstaklinga.

Í greinargerð frumvarpsins segir að ýmsir þættir, þar með talinn aldur, geti leitt til þess að „einstaklingar fái ekki tækifæri til jafns við aðra til að gegna störfum sem eru við þeirra hæfi eingöngu vegna neikvæðra staðalímynda tengdum aldri, fötlun eða skertri starfsgetu fremur en einstaklingsbundinnar starfshæfni hlutaðeigandi. Er frumvarpi þessu ætlað að koma í veg fyrir slíka mismunun.“

Spurð hvort vísan í þroskamun væri ekki andstætt greinargerð laganna þar sem þroski sé einstaklingsbundinn og slíkt gæti vísað til „neikvæðra staðalímynda“ svarar Lára því játandi. Hún bætir við að ákvæði kjarasamninga um launakjör sem bundin eru við lífaldur „þurfi að skoða betur og hugsanlega láta á þetta reyna. Þetta er ekki í samræmi við lögin eins og þau eru útfærð og eins og þau eru skipuð.“

Formaður VR ánægður með lögin

„Þetta er eitt af þeim málum sem ég hef lagt ríka áherslu á að verði leiðrétt gagnvart unga fólkinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is. Hann segist hafa viljað berjast fyrir því að fella úr gildi hlutfallstaxta ungs fólks á vinnumarkaði og að það hafi verið eitt af þeim málum sem hefur staðið til að ræða í komandi kjaraviðræðum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fangar nýju lögunum.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fangar nýju lögunum. mbl.is/​Hari

Inntur álits á því að þessi aldurstengdu ákvæði kjarasamninga hafi hugsanlega orðið ólögleg segir Ragnar: „Ég bara fagna því að þessu sé komið í lög og við munum klárlega fara í það að skoða hvort það sé svo að þessi ákvæði kjarasamninga stangast á við lögin.“

„Samningsaðilar munu að sjálfsögðu taka tillit til breytinga á lögum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við blaðamann, en hann vildi ekki tjá sig frekar um umrædd lagaákvæði.

Leitað var viðbragða fulltrúa Samtaka verslunar og þjónustu, vegna málsins, sem vísaði á Samtök atvinnulífsins. Einnig var framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda inntur álits við vinnslu fréttarinnar, en hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert