Manndrápsmál komið til héraðssaksóknara

Héraðssaksóknari er kominn með málið á sitt borð.
Héraðssaksóknari er kominn með málið á sitt borð. mbl.is/Ófeigur

Mál manns á sjötugsaldri sem grunaður er um að hafa banað bróður sínum í uppsveitum Árnessýslu þann 31. mars er nú komið á borð embættis héraðssaksóknara sem mun gefa út ákæru í málinu. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðum málsins hefur komið fram að bróðirinn hafi sjálfur hringt á Neyðarlínuna að morgni 31. mars þar sem hann lýsti hvernig hann og bróðir hans, Ragnar Lýðsson, hefðu lent í átökum um kvöldið eftir að hafa setið að drykkju að heimili hins grunaða að bænum Gýgjarhóli II. Minni hans af at­b­urðum væri óljóst en hinn látni hefði orðið brjálaður, þeir tek­ist á, en svo hefði rjátl­ast af hinum látna. 

Við skýrslu­töku hjá lög­reglu bar hinn grunaði við minn­is­leysi um það sem þeim bræðrum fór á milli en pen­ingalán sem hann veitti hinum látna hefði þó borið á góma. Hann gat ekki gefið hald­bær­ar skýr­ing­ar á því hvers vegna áverk­ar hefðu verið á hon­um sjálf­um eða hvers vegna blóð hefði verið á and­liti hans, hendi og föt­um þegar lög­reglu bar að. 

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknara hjá embætti héraðssaksóknara, staðfestir við mbl.is að málið sé á þeirra borði, en í frétt Rúv er vísað til orða hennar um að vonandi verði ákæra í málinu gefin út sem fyrst. Frestur til þess að gefa út ákæru í málinu án þess að sleppa hinum grunaða úr varðhaldi er til 23. júní, en þá verða liðnar 12 vikur frá því að málið kom upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert