Ölfus auglýsir eftir bæjarstjóra

Nýr bæjarstjóri mun taka við í ráðhúsinu í Þorlákshöfn á …
Nýr bæjarstjóri mun taka við í ráðhúsinu í Þorlákshöfn á næstunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Samþykkt var samhljóða á fyrsta fundi bæjarstjórnar Ölfuss á kjörtímabilinu að auglýsa formlega eftir nýjum bæjarstjóra. Minnihluti bæjarstjórnar harmar að ekki hafi verið vilji til þess að leita til fráfarandi bæjarstjóra varðandi áframhaldandi ráðningu.

Gunnsteinn R. Ómarsson hefur verið bæjarstjóri Ölfuss síðustu fimm ár, en hann lætur nú af störfum og hefur Guðni Pétursson bæjarritari Ölfuss verið settur bæjarstjóri þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs bæjarstjóra.

Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Ölfuss, en einungis tveir flokkar buðu fram í sveitarfélaginu í nýafstöðnum kosningum. Sjálfstæðismenn höfðu lýst því yfir fyrir kosningar að þeir hyggðust auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra.

O-listi Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi hefði viljað halda í Gunnstein og lét Jón Páll Kristófersson bæjarfulltrúi minnihlutans bóka að harmað væri að ekki væri leitað til hans á ný.

„Hann hefur tekið fullan þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem átt hefur sér stað á hans starfstíma hjá sveitarfélaginu og er okkar mat að eðlilegt hefði verið að hann héldi áfram að leiða það starf í samstarfi við bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins,“ segir í bókun minnihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert