Svikahrappur handtekinn á Íslandi

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Eggert

Danskur svikahrappur, sem var handtekinn um borð í flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Maðurinn sveik fé út úr fólki sem fór inn á vefsíðuna dba.dk þar sem það ætlaði að kaupa miða á tónleika eða tónlistarhátíðir.

Erfitt reyndist að fá manninn til að mæta í réttarsalinn og þurftu sum fórnarlamba hans, sem alls voru um 20 talsins, að mæta fyrir dóm sjö sinnum, að því er vefsíðan Avisen greinir frá.  

Maðurinn átti að mæta fyrir dóm á mánudaginn en þá stóð til að dæma í málinu.

Þess í stað flúði hann undan réttvísinni og ætlaði að fljúga til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi en var handsamaður í flugvélinni af íslenskum lögreglumönnum, að beiðni dönsku lögreglunnar.

Hann var fluttur til Danmerkur og dæmt var í máli hans í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert