„Veldur stórkostlegri hættu“

Ökumanninum var ekki veitt eftirför á Reykjanesbrautinni, að sögn aðalvarðstjóra.
Ökumanninum var ekki veitt eftirför á Reykjanesbrautinni, að sögn aðalvarðstjóra. mbl.is/​Hari

Maðurinn sem ók á ofsahraða um Reykjanesbraut í gærmorgun og olli tjóni á fjölda bíla hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.

Að sögn Sævars Guðmundssonar, aðalvarðstjóra í umdræmi lögreglunnar í Hafnarfirði, er maðurinn í kringum fertugt og af erlendu bergi brotinn. Hann er búsettur hérlendis og hefur lítið sem ekkert komið við sögu lögreglunnar áður. Hann er grunaður að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan veit ekki hversu hratt hann ók en þegar lögreglubíll mætti honum á Reykjanesbraut til móts við Ásvelli var hann á yfir 130 km hraða á klukkustund.

mbl.is/Eggert

Ók eftir miðri Reykjanesbrautinni

Aðspurður segir Sævar að málið sé óvenjulegt. „Þarna ekur maður á miðri Reykjanesbrautinni og veldur stórkostlegri hættu,“ segir hann og nefnir að maðurinn hafi ekið eftir miðjum, einföldum veginum á Reykjanesbrautinni og bílar sem komu á móti hafi átt í fullu fangi með að sveigja frá. Ekkert tjón varð á þeim bílum. 

Maðurinn hélt áfram leið sinni í átt að Hafnarfirði og þegar hann kom að langri röð sem myndast jafnan við hringtorgið hjá N1-stöðinni keyrði hann inn í þvöguna er hann reyndi að troða sér á milli.

„Þetta er auðvitað mjög óvenjulegt og bendir til í hvers konar ástandi maðurinn hlýtur að hafa verið,“ segir Sævar og bætir við að speglar á bílum og annað smávægilegt tjón hafi orðið áður en hinn eiginlegi árekstur varð.

Hann nefnir að sem betur fer hafi orðið lítið líkamstjón. Maðurinn sem stundaði ofsaaksturinn var fluttur á slysadeild með minniháttar meiðsli, auk þess sem kona sem var í einum bíl slasaðist minniháttar.

Lögreglan veitti bílnum ekki eftirför

Sævar vill taka fram að bíl mannsins hafi ekki verið veitt eftirför af lögreglunni eins og margir hafa talið en fólk hefur haft efasemdir um að slíkar eftirfarir séu réttlætanlegar.

Hann segir að lögreglan hafi mætt bílnum á Reykjanesbrautinni. Hún hafi ekki getað snúið strax við og að ökumaðurinn hafi ekki séð lögreglubílinn. Hann hafi aldrei vitað af lögreglunni fyrir aftan sig, enda var lögreglan það langt fyrir aftan. Í framhaldinu kom lögreglan á vettvang eftir að áreksturinn varð.

Reykjanesbraut, skammt frá staðnum þar sem ökumaðurinn olli tjóni.
Reykjanesbraut, skammt frá staðnum þar sem ökumaðurinn olli tjóni. mbl.is/​Hari

Eitt myndskeið hefur borist

Lögreglan auglýsti í gær eftir myndskeiði frá ferðum bílsins. Eitt slíkt hefur borist og segir Sævar að það muni nýtast lögreglunni við rannsókn málsins. Það var tekið upp með búnaði sem sumir eru með í bílum sínum nú til dags.

Tryggingafélag ökumannsins greiðir tjónið

Tíu bílar skemmdust í gær, þar af voru fjórir fluttir í burtu með dráttarbíl. Spurður út í tjónið sem ökumaðurinn olli með athæfi sínu telur Sævar að það nemi milljónum. Hann gerir ráð fyrir því að tryggingafélag mannsins muni greiða tjónið sem varð á bílunum og líklega muni endurkröfur koma á ökumanninn í framhaldinu. „Þetta er gríðarlega mikið tjón,“ segir hann. „Sjálfsagt endar þetta með feitum reikningi á ökumanninn þegar fram líða stundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert