20 mánaða fangelsi fyrir nauðgun

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Helgi Fannar Sæþórsson hefur verið dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir nauðgun á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 31. júlí 2015. Þá er honum gert að greiða brotaþola 1,5 milljónir í miskabætur, auk þess sem honum ber að greiða málskostnað.

Ákært var í málinu 22. janúar á þessu ári og var málið dómtekið 9. maí, en litið var til tafa á málinu við úrskurð dómsins.

Ákærði krafðist sýknunar í málinu, en það atvikaðist með þeim hætti að brotaþoli og ákærði kynntust í Herjólfi á leið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á fimmtudegi. Ákærði bauð brotaþola og vinum hennar að gista á sama svæði á tjaldsvæði í Herjólfsdal og þáðu þau það. Á fimmtudagskvöldi munu ákærði, brotaþoli og vinir þeirra hafa farið á Húkkaraball. Brotaþoli og ákærði gistu saman í tjaldi að því loknu en ekkert mun hafa farið þeim á milli.

Á föstudegi var drykkja hafin um hádegi og að sögn brotaþola og annarra vitna mun hún hafa drukkið mjög mikið og dáið áfengisdauða í brekkunni. Ákærði mun hafa boðist til að fara með hana í tjald sitt og hafði þar samræði við hana. Taldi hann að það væri með vilja brotaþola en hún kveðst ekki muna eftir atvikinu. Þá mun vinur brotaþola hafa komið að þeim í tjaldinu og sagði hann augljóst að brotaþoli hafi verið án meðvitundar.

Daginn eftir var brotaþoli ítrekað spurð af fyrrgreindum vini hvort hún hafi sofið hjá ákærða en kvað hún svo ekki hafa verið. Vinur hennar sagði henni þá að hann hafi komið að henni og ákærða og var henni mjög brugðið. Ákærði mun síðar hafa rætt við brotaþola, verið hræddur um að hann hefði brotið á henni og baðst afsökunar.

Brotaþoli leitaði á lögreglustöð 6. ágúst 2015 og lagði fram kæru gegn Helga Fannari og var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 5. júní síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert