Lærði rússnesku fyrir HM í Rússlandi

Kremlin í bak.
Kremlin í bak. Ljósmynd/Aðsend

„Ég lærði einu sinni smá [rússnesku] og svo byrjaði ég í stífum æfingum í janúar til að undirbúa mig. Maður fær miklu meira út úr ferðalaginu ef maður getur aðeins tjáð sig, skilið og bjargað sér. Þannig að ég tók mig svolítið á. Ég er búin að horfa á alla rússneska þætti á Netflix, aðallega sakamálaþættina, þannig að orðaforðinn er kannski of mikið um morð og að drepa,“ segir Sylvía Ólafsdóttir um undirbúning sinn fyrir reisu sína til Rússlands í tilefni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

„Ég finn samt að ég er orðinn miklu betri í að hlusta og maður verður ekki eins þreyttur á að hlusta á svona gjörólíkt tungumál,“ bætir Sylvía við. Hún segir það muna miklu að geta gert sig skiljanlega og lesið, t.d. á skilti og reikninga á veitingastöðum.

Sylvía og sonur hennar Matthías lentu í Moskvu á sunnudag. Þau ætla á alla leiki íslenska liðsins í riðlakeppninni og jafnvel fleiri, ef íslenska liðið kemst upp úr riðlinu. „Ég á semsagt ekkert flug heim,“ segir Sylvía, laus við áhyggjur.

Í þakgarði Ritz-Carlton hótelsins er útsýni yfir alla miðborg Moskvu.
Í þakgarði Ritz-Carlton hótelsins er útsýni yfir alla miðborg Moskvu. Ljósmynd/Aðsend

Mæðginin hafa lagt það í vana undanfarin ár að ferðast um Evrópu til þess að horfa á íslensku landsliðin í knattspyrnu taka þátt í stórmótum. Þau fóru á evrópumótið í Frakklandi fyrir tveimur árum og evrópumótið í Hollandi í fyrra.

„Þetta er reyndar að verða soldið skipulagt fyrir okkur fyrirfram EM 2016, EM 2017, HM 2018 og stefnum á HM 2019 kvenna í Frakklandi. Þetta bara skipuleggur sig sjálft,“ segir Sylvía.

Stemningin hefur aukist hægt og rólega

Sylvíu fannst stemningin í Moskvu mjög sérkennileg þegar þau lentu á sunnudag. „Veit enginn að HM er að fara vera hér?“ spurði hún sjálfa sig enda virtist sem fólk áttaði sig ekki á því hvað væri um að vera. Stemningin lagaðist þó aðeins mánudag og á þriðjudag hafði mannfjöldinn í borginni aukist og byrjað að bera meira á áhangendum í hinum ýmsu landsliðstreyjum. Þá voru lögreglu- og hermenn orðnir sýnilegri.

Stemningin var orðin það mikil í gær að mæðginin ákvaðu að taka sér frí frá henni og voru búin að koma sér fyrir í þakgarði Ritz-Carlton hótelsins í Moskvu þegar blaðamaður hafði samband.

„Við erum í dulbúningi núna, við erum ekki í treyjunum okkar því það var verið að stoppa okkur í allan gærdag. Allir í Argentínutreyju vildu taka myndir og svo hittum við Ástrali og Brasilíumenn. Það er mikið verið að óska okkur til hamingju með að vera komin hingað á mótið. Það þykir sigur í huga þessara stóru fótboltaþjóða,“ bætir hún við og segir fólk almennt þekkja íslenska fánann.

Argentínumenn vilja ólmir fá mynd af sér með Íslendingum.
Argentínumenn vilja ólmir fá mynd af sér með Íslendingum. Ljósmynd/Aðsend

Í dag ætla Sylvía og Matthías í Luzhniki-garðinn þar sem opnunarleikur mótsins verður sýndur en þá munu heimamenn í Rússlandi taka á móti Sádi-Arabíu.

Að lokum segist svo Sylvía vera byrjuð að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið árið 2022 sem haldið verður í Katar. „Ég er byrjuð að læra arabísku,“ segir hún hlæjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert