Ísland dæmt við þinglok

Höfuðstöðvar ESA í Brussel.
Höfuðstöðvar ESA í Brussel. Ljósmynd/EFTA

EFTA-dómstóllinn hefur í dag komist að niðurstöðu í 6 málum sem eftirlitsstofnun EFTA, ESA, höfðaði gegn Íslandi. Íslenska ríkið tapaði öllum sex málunum og er gert að greiða allan sakarkostnað.

Málin snúa öll að vanefndum við innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög, en Ísland hafði sagst ætla að ganga frá innleiðingu fyrir þinglok.

Umræddar tilskipanir virðast allar ná til fjármálageirans, en íslenskum stjórnvöldum var send formleg tilkynning frá ESA 11. janúar 2017 um að Ísland hefði ekki innleitt umræddar tilskipanir. Í mars sama ár svara íslensk yfirvöld og segja að frumvarp muni verða lagt fyrir Alþingi vorið 2017.

Þann 1. júní 2017 upplýsa stjórnvöld ESA með tölvupósti að framlagningu frumvarps þess efnis að innleiða umræddar tilskipanir hafi verið frestað til haustsins. ESA tilkynnir yfirvöldum í júlí að stofnunin mun veita íslenska ríkinu frest til 12. september 2017 til þess að leiða í lög tilskipanir Evrópusambandsins, engar athugasemdir voru gerðar við þann frest af hálfu Íslendinga.

Við þinglok í desember 2017 var hins vegar orðið ljóst að ekkert frumvarp hafði verið lagt fyrir Alþingi og kærði ESA íslenska ríkið til EFTA-dómstólsins 21. desember 2017. Í vörn sinni neitaði íslenska ríkið því ekki að hafa ekki innleitt umræddar tilskipanir, en upplýsti að til stæði að leggja frumvarp fyrir Alþingi vorið 2018.

Þegar þingstörfum lauk, aðfaranótt miðvikudags, var ljóst að ekkert frumvarp þess efnis að leiða umrædd ákvæði í lög hér á landi hefði verið samþykkt og dæmdi EFTA-dómstóllinn Íslandi í óhag í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert