Leyfa sölu áfengis í Hljómskálagarði

Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum …
Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi í sumar. Leikir Íslands verða sýndir í Hljómskálagarðinum en allir leikir mótsins á Ingólfstorgi. Myndin sýnir fyrirhugað skipulag í Hljómskálagarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Búið er að veita leyfi til sölu áfengis í Hljómskálagarðinum vegna sýningar frá leikjum Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Þetta hefur fengist staðfest frá Reykjavíkurborg og Gísla Frey Björgvinssyni, framkvæmdastjóra rekstraraðila Priksins.

Prikið mun sjá um sölu áfengis á HM-torginu sem verður í Hljómskálagarðinum. Reiknað er með því að selja bjór, bæði af dælum og í dósum, inni í sérstöku tjaldi. Vínveitingaleyfið var veitt með stuttum fyrirvara um klukkan fjögur í dag og því enn ekki komið nákvæmlega á hreint hvernig staðið verður að sölunni.

„Af því að þetta kom með frekar stuttum fyrirvara og svolítið verið að gera þetta í fyrsta skipti þarna. Þá erum við svolítið að læra og sjá hvernig þetta kemur út,“ sagði Gísli um fyrirkomulagið á áfengissölunni.

Sagt hefur verið frá því að allir leikir Íslands í keppninni verði sýndir á risaskjá í Hljómskálagarðinum. Þar verður boðið upp á aðstöðu fyrir fjölskyldur og leiksvæði fyrir börn með hoppuköstulum. Einnig verða settir upp fótboltavellir og leiktæki.

Í Hljómskálagarðinum verður líka veitingasala og sala á stuðningsmannavarningi. Fyrir alla leiki verða skemmtiatriði á sviðinu sem sett verður upp í garðinum. Dagskrá má nálgast á Facebook-síðu HM-torgsins.  

RÚV verður með sjónvarpssett við hlið sviðsins þar sem sýnt verður beint úr Hljómskálagarðinum fyrir leiki og í hálfleik. Þá verða tekin viðtöl við sérfræðinga í setti og gesti í garðinum.

Allir leikir HM verða svo sýndir beint frá Ingólfstorgi þar sem búið er að setja upp risaskjá og hljóðkerfi.

Leikir Íslands verða einnig sýndir á fleiri stöðum í Reykjavík eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag og á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert