Stafræn varðeldastemning með reykvélum

Undirbúningur fyrir karnivalið er í fullum gangi. Á stóra sviðinu …
Undirbúningur fyrir karnivalið er í fullum gangi. Á stóra sviðinu munu m.a. koma fram DJ Margeir, DJ Yamaho, Úlfur Úlfur, Bríet, Daði Freyr og fleiri. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er búin að vera að biðja til sólarguðanna síðustu tímana og mér sýnist ætla að rætast úr hjá mér seinni partinn í dag. Svo segja veðurfræðingarnir alla vegna,“ segir Velina Apostolova, viðburðarstjóri Nova, en fyrirtækið stendur með DJ Margeiri að karnivali í Öskjuhlíðinni í kvöld.

Spurð hvort það sé ekki bjartsýni að ætla að halda karnival í Öskjuhlíðinni miðað við veðurfarið undanfarið, segir Velina svo kannski vera. „Við erum hins vegar almennt bjartsýn hjá Nova og fáum oft hugmyndir sem að við hrindum hratt í framkvæmd,“ bætir hún við og segir ekki nema um viku langan aðdraganda að karnivalinu. „En ég er alveg búin að vera með kvíðahnút í maganum út af veðrinu síðastliðna viku. Ég ætla ekkert að ljúga neinu til um það.“

Nova hefur haldið tónleika á Esjunni undanfarin ár og segir Velina þau hafa verið merkilega heppið með veður.  Jafnvel þó að við höfum þurft að fresta, þá hefur það gengið vel. Fólk hefur tekið vel í það og mætt svo bara daginn eftir.“

Velina heldur utan um alla þræði við undirbúning karnivalsins og tryggir að allt gangi vel fyrir sig. Hún segir undirbúninginn í fullum gangi, en unnið er að því að breyta Öskjuhlíðinni í undraland. Hún hvetur fólk til að koma á svæðið um bílastæðið hjá Háskólanum í Reykjavík. „Þar er skemmtilegur inngangur inn á svæði og björgunarsveitarmenn stýra umferðinni. Við verðum líka með hjólagrindur og hvetjum fólk til að  koma annað hvort hjólandi eða gangandi.“

Útilegu-varðeldsstemning á að vera á svæðinu og verður setur upp …
Útilegu-varðeldsstemning á að vera á svæðinu og verður setur upp tæknilegur varðeldur með sjónvarpssjám og reykvélum. mbl.is/Árni Sæberg

Byrjar rólega en endar í dansi

Boðið verður upp á tvö svæði með viðburðum. Á stóra sviðinu munu m.a. koma fram DJ Margeir, DJ Yamaho, Úlfur Úlfur, Bríet, Daði Freyr og fleiri.

„Síðan er annað svæði og þar viljum við vera með útilegu-varðeldsstemningu,“ segir Velina. „Það er hins vegar ekki vel séð að kveikja varðeld í skóglendi og þess vegna erum við að útbúa tæknilegan varðeld með sjónvarpsskjám og reykvélum. Þar verður aðeins rólegri stemning.“ Hún segir þá Teit Magnússon og Snorra Helgason verða þar með gítar og trúbador stemningu í anda varðeldasöngva. „Síðan verðum við með afrískar trommur til að hrista upp í liðinu.“

Einnig verður boðið upp á jóga fyrri part kvölds, en dagskráin hefst klukkan 18. „Fyrir þá sem  hafa mætt á karnivalið sem DJ Margeir er með á Klapparstíg á menninganótt, þá verður þetta svipuð stemning. Það byrjar rólega en endar yfirleitt í dansi og við erum að keyra á þeirri stemmningu.“

Spurð hvort að það sé raunhæft að halda karnival á Íslandi svarar hún hlæjandi: „Það kemur í ljós í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert