Brunninn bíll fæst ekki bættur

Eldur barst í bíl konunnar frá annarri bifreið á bílastæði …
Eldur barst í bíl konunnar frá annarri bifreið á bílastæði í Reykjavík á milli jóla og nýárs árið 2016. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Tryggingafélagið Sjóvá-Almennar hefur verið sýknað af kröfu konu sem vildi að tryggingafélagið viðurkenndi bótaskyldu vegna brunatjóns á bifreið hennar. Eldur barst í bíl konunnar frá annarri bifreið sem kviknaði í á bílastæði fyrir utan heimili hennar á milli jóla og nýárs árið 2016.

Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Bifreiðin sem kviknaði í var tryggð ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá og taldi konan að tryggingafélagið hefði bótaskyldu gagnvart henni af þeim sökum. Því hafnaði tryggingafélagið og sagði að ekki mætti rekja tjónið til notkunar ökutækisins og því heyrði það ekki undir ábyrgðartryggingu þess.

Brunaferlar voru í skýrslu tæknideildar lögreglu taldir gefa til kynna að eldsupptök hefðu verið við vinstra frambretti hinnar bifreiðarinnar og þaðan hefði eldurinn borist í bíl konunnar. Eldurinn kom upp um nótt, en bílnum hafði verið lagt í stæði laust fyrir hádegi daginn áður.

Eldsupptök eru ókunn, en þó var í skýrslu lögreglu sagt líklegt að kviknað hafi í út frá rafmagni. Í málinu var sem áður segir deilt um það hvort notkun bílsins hefði valdið tjóninu.

Konan taldi svo vera og að yfirgnæfandi líkur væru á því að kviknaði hefði í bílnum út frá bilun í rafbúnaði, sem tengdist óhjákvæmilega notkun bifreiðarinnar, þar sem slíkur búnaður sé nauðsynlegur vegna notkunar bifreiðarinnar sem ökutækis.

Sjóvá-Almennar færðu hins vegar rök fyrir því að þar sem eldsupptök væru sögð ókunn af lögreglu, bæri konan sönnunarbyrði fyrir því hver eldsupptökin hefðu verið og þar af leiðandi hallann af sönnunarskorti þar á. Einnig sagði tryggingafélagið að jafnvel þótt rekja mætti eldsupptökin til bilunar í rafmagnsbúnaði bifreiðarinnar, væri tjónið ekki rakið til notkunar bifreiðarinnar, þar sem hún hefði verið kyrrstæð í tæpan sólarhring.

Dómari í málinu tók undir með tryggingafélaginu og sagði konuna ekki hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á henni hvíldi til að upplýsa um orsök tjónsins. Þá væru ekki heldur færðar sönnur á orsakatengsl á milli notkun bifreiðarinnar og tjónsins.

Féllst dómari því á sýknukröfu Sjóvár-Almennra og ákvað að fella niður málskostnað milli aðila. Málflutningskostnaður konunnar, 990.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert