Skjáir vegna leiks Íslands og Argentínu

Viðburðir verða um allt land vegna leiks Íslands á móti …
Viðburðir verða um allt land vegna leiks Íslands á móti Argentínu á morgun. Samsett mynd

Leikur Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi hefst klukkan eitt á morgun og verður sýndur á risaskjáum og tjöldum bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Mbl.is tók saman lista yfir helstu sýningastaði og dagskrána í boði.

Höfuðborgarsvæðið

Í Reykjavík verður leikurinn sýndur á fimm opinberum stöðum í það minnsta. Opinbert HM-torg fyrir leiki Íslands á heimsmeistaramótinu verður í Hljómskálagarðinum en þar verða leikir Íslands sýndir á fjörutíu fermetra risaskjá. Í garðinum verður boðið upp á aðstöðu fyrir fjölskyldur þar sem settir verða upp fótbolta- og blakvellir ásamt ýmsum leiktækjum. Hægt verður að kaupa mat og drykki á staðnum sem og stuðningsmannavarning.

Þá verður sett upp svið þar sem ýmis atriði verða á dagskrá. Á morgun mætir Daði Freyr sem mun syngja nokkur lög fyrir leik og Tólfan verður einnig á staðnum til að halda uppi stuðinu. Kynnir hátíðarinnar verður Felix Bergsson og hefst dagskráin klukkan ellefu.

Þá verða allir leikir heimsmeistaramótsins sýndir á risaskjá á Ingólfstorgi líkt og gert var þegar EM í Frakklandi stóð yfir fyrir tveimur árum. Leikurinn á morgun verður einnig sýndur á skjáum á markaðnum Box í Skeifunni, í Hjartagarðinum í miðbæ Reykjavíkur og við Vesturbæjarlaugina.

Í Garðabæ verður heilmikið um að vera en þar verður leikurinn sýndur á 28 fermetra skjá á Garðatorgi. Stórt svið verður sett upp á torginu og munu þeir Jón Jósep Snæbjörnsson og Jógvan Hansen sjá um að halda uppi stemningu.

Fyrir yngri kynslóðina verður margt í boði en settir verða upp fótbolta- og blakvellir auk þess sem boðið verður upp á andlitsmálningu. Veitingasala verður á Garðatorgi og munu verslanir bjóða sérstök HM-tilboð. Dagskráin hefst hálf tólf.

Rútur munu ganga til og frá torginu, bæði fyrir og eftir leik.

Á Thorsplani í Hafnarfirði verður bein útsending frá leiknum sem og öðrum leikjum Íslands í keppninni. Strandgötu verður breytt í göngugötu klukkutíma áður en leikurinn hefst.

Heiðar Örn Kristjánsson stjórnar upphitun og á svæðinu verða alvöru víkingar sem munu stjórna víkingaklappinu en víkingahátíðin í Hafnarfirði stendur einmitt yfir núna.

Þar verður einnig hægt að nálgast mat, drykk og stuðningsmannavarning.

Gríðarlega mikill fjöldi safnaðist saman á Thorsplani fyrir tveimur árum.
Gríðarlega mikill fjöldi safnaðist saman á Thorsplani fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Aðsend

Í Mosfellsbæ verður leikurinn sýndur á risaskjá í Hlégarði. Húsið opnar klukkan tólf með upphitun og verður staðnum breytt í fjölskylduvænt stuðningsmannasvæði. Fyrir utan verða sett upp fótboltamörk og mun meistaraflokkur kvenna í Aftureldingu bjóða upp á leiki, þrautir og andlitsmálningu. Heitt verður á grillinu og frítt inn á meðan húsrúm leyfir.

Í Kópavogi verður leikurinn sýndur á Rútstúni við sundlaug Kópavogs. Útsendingin þar byrjar klukkan hálftólf og þar verða seldar veitingar.

Landsbyggðin

Tveir skjáir verða settir upp á Akureyri á morgun. Fimmtán fermetra risaskjár verður settur upp í Listagili þar sem hægt verður að horfa á leikinn af götunni og úr kirkjutröppunum. Þá verður smærri skjá komið fyrir í sundlauginni á Akureyri þannig að hægt verði að horfa á leikinn meðan fólk lætur fara vel um sig í heitu pottunum.

Valaskjálf menningarhús á Egilsstöðum mun sýna leikinn á risatjaldi með öflugu hljóðkerfi. Hægt verður að kaupa veitingar af sérstökum HM-matseðli og þá verða drykkir á tilboði.

Gamla Kaupfélagið á Akranesi mun einnig sýna leikinn á nýju risatjaldi. Veitingar verða í boði og tilboð á barnum. Svarti Pétur á Akranesi sýnir leikinn einnig. 

Í Vestmannaeyjum verður leikurinn sýndur á Stakkagerðistúni. 

Í Reykjanesbæ verður settur upp níu fermetra skjár í skrúðgarðinum fyrir framan Ráðhús Reykjanesbæjar. Veitingar verða í boði og leynigestur mun mæta á svæðið. Þá munu meðlimir Akstursíþróttafélags Suðurnesja mæta og sýna bílana sína. Meistaraflokkur kvenna í Keflavík mun bjóða upp á andlitsmálningu og almenna skemmtun.

Þá mun veitingastaðurinn Húsið á Ísafirði sýna frá leiknum og þar verða allir velkomnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert