Hátíðarhöld á 17. júní

17. júní 2017.
17. júní 2017. Eggert Jóhannesson

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur á sunnudaginn 17. júní og má búast við lífi og fjöri í miðborginni frá morgni til kvölds.

Dagskráin hefst með hátíðarguðþjónustu í Dómkirkjunni klukkan 10:00, áður en hátíðarathöfn á vegum Alþingis og forsætisráðuneytisins hefst svo klukkan 11:10 á Austurvelli. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun þar leggja blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur hátíðarræðu. Að lokum flytur fjallkonan svo ávarp áður en skrúðganga fer svo frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem lagður verður blómsveigur á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

Fjallkonan flytur ávarp á 17. júní í fyrra.
Fjallkonan flytur ávarp á 17. júní í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Klukkan 13:00 leggja svo skrúðgöngur af stað frá bæði Hlemmi og Hagatorgi sem enda í Hljómskálagarðinum. Þar verða stórtónleikar sem standa til klukkan 18:00 og munu tónlistarmenn á borð við Daða Frey og Aron Can koma þar fram. Auk tónleikana verður á mörgu að taka í Hljómskálagarðinum. Má þar nefna náttúruþrautabraut, hoppukastala og Brúðubílinn.

Forseti Íslands leggur Blómsveig við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli …
Forseti Íslands leggur Blómsveig við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli á 17. júní í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátíðarhöld um land allt

Á Akureyri hefst dagskráin klukkan 13:00 með hátíðardagskrá í Lystigarðinum sem endar á skrúðgöngu að Ráðhústorginu klukkan 13:45. Þar tekur við fjölbreytt fjölskyldudagskrá þar sem meðal annars Leikhópurinn Lotta og Villi Vísindamaður koma fram. Um kvöldið er svo kvölddagskrá í miðbænum fram að miðnætti.

Á Egilsstöðum er hátíðarmessa klukkan 10:30 í Egilsstaðarkirkju og þaðan fer svo skrúðganga klukkan 11:30 í Tjarnargarðinn. Þar verður skemmtileg dagskrá fram eftir degi með tónlistaratriðum, fimleikasýningu og andlitsmálun svo eitthvað sé nefnt.

Á Ísafirði hefst hátíðarguðþjónusta klukkan 11:00 og hátíðardagskrá hefst svo klukkan 14:00 á Eyrartúni. Þaðan fer svo skrúðganga að Neðstakaupstað klukkan 14:30 þar sem dagskráin heldur áfram.

Í Reykjanesbæ hefst hátíðarguðþjónusta í Keflavíkurkirkju klukkan 12:30. Þaðan fer svo skrúðganga að skrúðgarði þar sem hátíðardagskrá fer fram. Kvölddagskrá fyrir ungmenni verður á milli klukkan 20:00 og 22:00.

Dagskráin á Selfossi hefst með morgunjóga við bakka Ölfusár klukkan 9:00. Skrúðganga fer svo frá Selfosskirkju klukkan 13:00 og endar hún í Sigtúnsgarði þar sem hátíðardagskrá fer fram.

Nánari upplýsingar um dagskrána í miðborg Reykjavíkur má finna hér.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert