„HM-karlinn“ missir sig yfir leikjunum

Fjölskyldan á leik á Evrópumótinu fyrir tveimur árum.
Fjölskyldan á leik á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Edda Mjöll

Fjöldi Íslendinga á eflaust eftir að naga neglurnar og öskra sig hásan yfir leik Íslands og Argentínu í dag. Ólíklegt er þó að fáir sýni jafnmikla innlifun og Karl Björgvin Brynjólfsson, eða „HM-karlinn“ eins og hann er kallaður nú þegar mótið er hafið.

Edda Mjöll Dungal Karlsdóttir birti myndskeið á Facebook síðasta haust þar sem Karl faðir hennar fylgist með leik Íslands og Tyrklands í undankeppni HM. Ísland vann leikinn 3:0 og Karl ræður sér varla fyrir kæti.

„Mig langaði bara að deila þessu með fólki því þetta er svo skemmtileg innlifun,“ segir Edda við mbl.is en hún segir að pabbi hennar sé yfirleitt mjög lokuð týpa sem missi sig yfir landsleikjum.

Karl vildi sjálfur ekkert ræða umrætt myndskeið eða geðshræringu hans yfir landsleikjum. Þegar blaðamaður hringdi í hann og kynnti sig sem blaðamann frá mbl.is fylgdi því 15 sekúndna þögn. „Stelpan er að drepa mig,“ sagði Karl síðan.

„Honum fannst hann fá of mikla athygli út af þessu en hann gat ekki farið út í búð án þess að fólk minntist á myndskeiðið,“ segir Edda sem tók myndskeiðið út síðasta haust. Hún birti það aftur í síðustu viku, með góðfúslegu leyfi Karls.

„Ég ólst upp við þetta og hélt að allir væru svona. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef tekið hann upp og það var frábært að ná þessu,“ segir Edda og bætir við að þau feðgin muni horfa saman á leikinn í dag:

„Ég þarf að hafa falda myndavél, hann verður svo var um sig!“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert