Í haldi grunaður um kynferðisbrot

mbl.is/Þórður

Karlmaður er í haldi lögreglunnar á Akureyri grunaður um kynferðisbrot. Að sögn lögreglu var meint brot framið á tjaldsvæðinu í Réttarhvammi. Maðurinn verður yfirheyrður í dag vegna málsins, sem kom á borð lögreglu um sjöleytið í gærkvöldi. 

Þó nokkur erill hefur verið hjá lögreglunni á Akureyri í gær og í nótt, en fjölmenni er í bænum vegna Bíladaga sem fara nú fram. Vegna þessa er lögreglan með aukinn viðbúnað.

Lögreglan hefur haft afskipti af mörgum ökumönnum vegna hraðaksturs. Sá sem ók hraðast mældist á 129 km hraða í Öxnadalnum um eittleytið í nótt, en þar er hámarkshraði 90 km á klst. 

Þá missti ökumaður stjórn á bifreið í Öxnadalnum rétt fyrir kl. fimm í nótt með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar. Þrír voru fluttir á slysadeild til skoðunar, en að sögn lögreglu var íslensk fjölskylda í bifreiðinni sem var á leiðinni til Akureyrar.

Alls gista þrír fangageymslur vegna ölvunar og óspekta að sögn varðstjóra. Einn af var tekinn fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert