Einn á kajak meðfram vesturströnd Evrópu

Toby Carr ætlar að ferðast sjóleiðina um Vestur-Evrópu á kajak.
Toby Carr ætlar að ferðast sjóleiðina um Vestur-Evrópu á kajak. Ljósmynd/Aðsend

Toby Carr, breskur 36 ára arkítekt og kajakræðari, er um þessar mundir að hefja ferðalag sitt sjóleiðina um Vestur-Evrópu á kajak.  

Carr, sem býr í London, hlaut styrk frá minningarsjóði Winston Churchill til þess að rannsaka allar þær 31 siglingaveðurstöðvar sem lesnar eru upp í sjóveðurspám Bretlands, en í Bretlandi eru reiknaðar út og gefnar víðfemar siglingaleiðir eftir gömlum fræðum. Ein sjóveðurathugunarstöðvanna er staðsett á suð-austurströnd Íslands og því ákvað Carr að hefja för sína hér á landi á Höfn í Hornafirði.

Hann mun síðan ferðast til Færeyja og Noregs, en þaðan fer hann sjóleiðina til Danmerkur og heldur þaðan meðfram ströndum Þýskalands, Hollands, Belgíu og mun síðan enda ferðalagið í Frakklandi.

Carr reri frá Höfn í Hornarfirði til Seyðisfjarðar.
Carr reri frá Höfn í Hornarfirði til Seyðisfjarðar. Ljósmynd/Toby Carr

Brjálað ævintýri

„Ég fer í þessa ferð til þess að svipast um eftir öllum þeim sjóveðurathugunarstöðvum sem Bretland útvarpar frá, sem er nokkuð brjálað ævintýri. Við suð-austurströnd Íslands er ein þessara veðurathugunarstöðva og þess vegna byrjaði ég ferðalagið þar,“ segir Carr, en fyrsti hluti ferðar hans mun taka um 9 vikur. Hann lenti auk þess í byrjunarörðugleikum í Reykjavík þar sem kajakinum hans var haldið í vörslum tollstjóra eftir að hann lenti hér á landi og tafðist hann því um tvær vikur.

Því næst var förinni heitið til Hafnar í Hornarfirði þar sem hann komst loks á haf út með kajakinn og reri til Seyðisfjarðar, með viðkomu víða á Austfjörðum. „Ég hafði góðan tíma til þess að skoða Austfirði, sem var frábært og veðrið þar hefur verið mjög gott. Mér tókst meira að segja að sólbrenna þar,“ segir Carr hlæjandi.

Carr byrjaði fyrst að róa á kajak fyrir sex árum síðan, þá í gruggugum vötnum Thames árinnar í London í frístundum en nú hefur hann ferðast á kajak víða um strendur Bretlands auk Grænlands, Sardiníu og Frakklands.

„Þetta er fyrsta ferðin sem ég fer í einn míns liðs. Ein af ástæðum þess að ég held í þessa för er til þess að kynnast mismunandi fólki á mismunandi stöðum, til þess að safna saman sögum af veðurathugunarstöðvunum,“ segir Carr.

Carr setur sig ekki upp á móti einverunni sem felst …
Carr setur sig ekki upp á móti einverunni sem felst í að róa vikum saman á kajak einn síns liðs. Ljósmynd/Aðsend

Sjóveðurfregnir eins og sefandi ljóð

Carr segist hafa notið þess að vera á Íslandi og að hann hafi fengið góðar viðtökur. „Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er hve Íslendingar eru vingjarnlegir. Allir hér eru fúsir til þess að aðstoða mig og taka sér tíma til þess. Það fólk sem ég hef kynnst hefur verið hlýlegt og boðið mig velkominn. Það er góð leið til að byrja ferðalagið, mjög jákvæð tilfinning,“ segir Carr.

Hluti af ferðalagi Carr er að fara á land, kanna landslag við veðurathugunarstöðvarnar, kynnast fólkinu sem þar býr og kynnast reynslu þess af kajakróðri á svæðunum. „Í Bretlandi eru sjóveðurfréttir sendar út fjórum sinnum á dag og fjöldi fólks hlustar á. Það hefur ekki endilega mikið með sjóinn að gera, heldur hlustar fólk á sjóveðurspár vegna þess að þær hafa róandi áhrif, svolítið eins og sefandi ljóð. Því eru margir sem þekkja orðin sem notuð við slíkar veðurfregnir, en vita ekki endilega hvað þau þýða eða hvar veðurstöðvarnar eru og hvernig sé að búa þar. Því hef ég verið að reyna að komast að fleiru um þessa staði,“ segir Carr.

Til að mynda hafi hann hitt vitavörð Brimnessvita, eins elsta vita landsins, sem honum þótti afar áhugavert. „Ég reyni líka að nota ferðina sem leið til að læra meira um nánustu nágranna okkar Breta á þessu sviði,“ segir Carr.

Andlegur undirbúningur skiptir máli

Carr nýtir frítíma sinn til þess að fara á kajak þegar hann er heima við, en hann býr og starfar í London. „Ég byrjaði á kajaksiglingum í Thames ánni. Venjulegur kajaktúr hjá mér væri að fara í hádeginu eftir ánni undir Turnabrúnna (e. „Tower bridge“) við Lundúnaturn. En ég reyni að eyða sem mestum tíma við strendur Bretlands á kajak,“ segir Carr, sem hefur m.a. haldið kajaknámskeið.

Aðspurður hvernig hann undirbúi sig fyrir ferð sem þessa segir Carr að maður þurfi að vera skipulagður. „Ég þarf að hafa alla mína hluti með mér á kajakinum, tjaldið, svefnpokann, öryggisvörur og allt saman. Svo krefst það einnig undirbúnings að hitta fólk sem ég ætla að eyða tíma með og finna út hvert ég ætla að fara,“ segir Carr en hann segir ekki síður mikilvægt að undirbúa sig andlega.

„Það krefst einnig mikils undirbúnings að komast á þann stað andlega að vera tilbúinn að leggja upp í slíkan róður, þú þarft að hafa hugann á réttum stað. Veðuraðstæður geta verið mjög krefjandi og því geta dagarnir verið langir á sjónum. Og þó svo að landslagið sé fallegt þá fer ég hægt yfir og því getur maður eytt þremur til fjórum klukkustundum með nákvæmlega sama útsýnið þar til maður kemst að landi. Þá þarf maður einfaldlega að halda áfram að róa.“

Kajakhópur í Thames-á við Turnabrúnna.
Kajakhópur í Thames-á við Turnabrúnna. Ljósmynd/Aðsend

Áskorun fyrir lífið

Mbl.is náði tali af einum fremsta kajakræðara Íslands, Guðna Páli Viktorssyni, en hann fór umhverfis Ísland á kajak á þremur mánuðum sumarið 2013 auk þess sem hann reri umhverfis Írland á í fyrra. Guðni aðstoðaði Carr og fór með honum í kajaktúra þegar hann ílengdist á Íslandi vegna aðgerða tollstjóra. „Þetta er frekar brjálað „mission“ hjá honum,“ segir Guðni hlæjandi.  

En hvað skyldi fá menn til þess að halda út á sjó í slíka svaðilför? „Ég veit svosem ekki hvað allir hinir vitleysingarnir eru að hugsa. En það sem mjög margir eru að leita að er ákveðin áskorun. Oft áskorun fyrir lífið, að gera eitthvað öðruvísi og storka sjálfum sér," segir Guðni.

„Fyrir mínar sakir er þetta frábær leið til þess að upplifa land og þjóð. Það tala allir um að eftir fyrsta leiðangurinn þá þurfi maður að svala hálfgerðri þörf, þetta er hálfgert „rush“. Svo er þetta stórkostlegur ferðamáti og auðvitað mjög umhverfisvænn.“

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. mbl.is/Eggert

Daglegt líf flóknara en róðurinn

Guðni segir að kajakróður sé góð leið til hugleiðslu og oft hafi reynst honum erfitt að kúpla sig út úr róðrinum. „Eftir Íslandsförina þá var ég auðvitað orðinn uppgefinn á líkama og sál en ég var samt orðinn svo ruglaður að ég var að spá í að róa suðurströndina til Reykjavíkur. Maður var bara kominn í rútínu með þetta," segir Guðni.

„Þarna snýst lífið bara um að næra sig og róa. Okkar daglega líf er miklu flóknara og erfiðara heldur en þetta, þarna ertu þinn eigin herra og stjórnast bara af veðrinu einu,“ segir Guðni, en hann játar þó að margra mánaða kajakróður fari ekki sérlega vel með fjölskyldulífi. „Þegar ég reri í kring um Írland þá vildi ég bara komast eins fljótt eins og ég gat heim, enda var ég þá kominn með lítið barn." 

Þeir skynsömustu ná lengst

Ísland hefur lengi verið ofarlega á listum yfir erfiðustu róðrarsvæði í heimi og sérstaklega er suðurströnd Íslands þar hátt skrifuð. En ætli kajakræðarar verði ekkert hræddir í erfiðum aðstæðum? „Jújú en það er svoleiðis í svo mörgum íþróttum. Ég held að þegar fólk er komið á þetta stig, að sigla í kringum lönd og annað, þá sé getan orðin mjög mikil. Og hjá flestum kajakræðurum sem ég þekki er öryggið í fyrsta sæti. Þeir sem ná lengst eru þeir sem eru skynsamir,“ segir Guðni Páll.

Guðni Páll segir að það reynist mörgum erfitt að vera einir á hafi úti og þá skipti máli að vera sterkur andlega. „Þetta er náttúrulega mikil einvera þegar menn eru að gera svona einir og þó svo að okkar tækniveröld í dag sé orðin mjög framarlega, maður geti hringt og svoleiðis, þá er alltaf ákveðinn „factor“ að geta verið einn. Ég myndi klárlega segja fyrir mig að andlegi hlutinn sé alveg 50% á móti hinu. Það eru margir sem falla á þeim hluta," segir Guðni Páll. 

Guðni Páll ætlar að fylgjast með Carr á ferð hans um Vestur-Evrópu. Hann vonar að Carr gangi sem best og telur að hann nái að klára ferðina. „Ég hef fulla trú á því, svo lengi sem hann fær rétt veður. Þetta er 90% heppni með veður," segir Guðni Páll að lokum. 

mbl.is