Blásið til tónlistarveislu í Þorlákshöfn

Ása Berglind Hjálmarsdóttir hvetur höfuðborgarbúa til að skella sér á …
Ása Berglind Hjálmarsdóttir hvetur höfuðborgarbúa til að skella sér á rúntinn til Þorlákshafnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rekstur veitingastaðarins Hendur í höfn í Þorlákshöfn hefur gengið vonum framar, en hann fagnaði nýlega fimm ár afmæli og í maí flutti hann í stærra og endurbætt húsnæði við aðalgötuna í bænum. Í sumar verður svo blásið til tónleikaraðar á veitingastaðnum.

Á þeim mánuði sem veitingastaðurinn hefur verið starfandi á nýjum stað hafa viðtökurnar verið frábærar, að sögn Dagnýjar Magnúsdóttur, listakonu og eiganda Hendur í höfn.

„Það er sama hvort það er þriðjudagur eða laugardagur, það er alltaf fullt af gestum,“ segir hún, en eldhúsið er opið alla daga til 20.30. Dagný er mikill fagurkeri og stíll hennar skín vel í gegn á nýja staðnum þar sem öll smáátriði eru úthugsuð til að gleðja augað.

Ásgeir Trausti er meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á …
Ásgeir Trausti er meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á tónleikaröðinni. Ljósmynd/Aðsend

Tónleikaröðin hefst þann 5. júlí á Hendur í höfn en fram kemur bæði heimafólk og tónlistarfólk úr fremstu röð á Íslandi, eins og Ásgeir Trausta, Sölku Sól, Sigríði Thorlacius, Sigurð Guðmundsson, Valdimar og fleiri. Ása Berglind Hjálmarsdóttir, skipuleggjandi viðburðararins, segir að þetta sé ákveðin tilraun til þess að bjóða Þorlákshafnarbúum og Sunnlendingum öllum uppá þétta og metnaðarfulla tónleikadagskrá. „Ég vonast til þess að fólk muni fjölmenna á alla tónleikana og sýni þannig íslensku tónlistarfólki fram á að Þorlákshöfn sé góður valkostur þegar hugsað er til þess hvar blásið skal til hljómleika.“

Gestir mega búast við mikilli nánd

Ása Berglind segir tónleikagesti geta búist við mikilli nánd við tónlistarfólkið. „Þetta er sennilega það sem kemst næst því að hafa þetta frábæra tónlistarfólk heima í stofu, stemningin verður þannig, bæði vegna þess að umhverfið hjá Dagnýju er svo hlýlegt og yndislegt og líka vegna þess að staðurinn er ekki stór í samanburði við aðra tónleikastaði. Þó það sé frábært að fara á tónleika á stöðum eins og í Hörpu, Háskólabíói, þá er fátt sem jafnast á við að sjá sitt uppáhalds tónlistarfólk með þessum hætti eins og boðið verður upp á á Hendur í höfn í sumar.“

Þá vill Ása Berlind benda höfuðborgarbúum á að Þorlákshöfn er aðeins í 30 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og því ætti fólk ekki að setja fjarlægðir fyrir sig. Það sé tilvalið að skella sér á rúntinn til Þorlákshafnar á góðu sumarkvöldi og njóta frábærrar tónlistar. Hún hvetur þá sem hafa áhuga að tryggja sér miða sem fyrst og þeir sem vilja fá sér að borða á Hendur í höfn fyrir tónleikana eru einnig hvattir til að panta borð tímanlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert