Braut gegn stjúpdóttur sinni

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur dæmt karlmann í 10 mánaða fangelsi sem braut kynferðislega gegn stjúpdóttur sinni á 10 ára afmælisdegi hennar. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða henni 600.000 kr. í miskabætur.

Landsréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjaness sem féll í maí í fyrra, nema þar var maðurinn dæmdur til að greiða 800.000 kr. í miskabætur. Honum var einnig gert að greiða 1,3 milljónir í áfrýjunarkostnað. Í héraði var hann dæmdur til að greiða tvær milljónir í sakarkostnað. 

Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn hafi á sameiginlegu heimili þeirra káfað á kynfærum og rassi stúlkunnar innan klæða og kysst hana á maga, bak og munn. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans beindist gegn stjúpdóttur hans á 10 ára afmælisdegi hennar, en með því brást hann trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni.

Maðurinn byggði málsvörn sína fyrir Landsrétti meðal annars á því að mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar hans og stúlkunnar hefði verið rangt og hafnaði ályktunum dómsins vegna ófullnægjandi rökstuðnings. Taldi hann framburð stúlkunnar að mörgu leyti misvísandi sem leiða ætti til þess að hann yrði metinn ótrúverðugur. Hann hafði á hinn bóginn gefið eðlilegar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir héraðsdómi. Þá byggði hann einnig á því að annmarkar væru á vottorði sálfræðings og yrði það því ekki lagt til grundvallar við mat á sönnun atvika. Hið sama ætti við um framburð hennar.

Landsréttur segir að það megi hafa hliðsjón af framburði sálfræðingsins og vottorði hans við úrlausn málsins eins og gert var í héraðsdómi. Þá hafi framburður stúlkunnar um atvik málsins í meginatriðum verið stöðugur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur um sakfellingu mannsins. 

Landsréttur segir ennfremur, að talsverður dráttur hafi orðið á rannsókn og saksókn í málinu og hann hafi ekki verið skýrður. Að teknu tilliti til þessa og með vísan til refsiforsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um fangelsisrefsingu mannsins og að frá henni myndir dragast gæsluvarðhald sem hann sætti í tengslum við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert