Fjölskyldur sviknar um miða á leikinn

Dæmi eru um að íslenskar fjölskyldur hafi verið svikin um …
Dæmi eru um að íslenskar fjölskyldur hafi verið svikin um miða í Rússlandi í gær. mbl.is/Eggert

Enn eru lausir miðar á næsta leik Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Liðið mætir Nígeríu á föstudaginn kemur, 22. júní, á Volograd Arena í Volograd. Nígeríumenn eru neðstir í riðlinum eftir fyrstu umferðina, stigalausir, eftir tap á móti Króatíu í gærkvöldi. 

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/ Golli

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, varar við því að fólk kaupi miða af þriðja aðila en ekki beint í gegnum miðasöluvef FIFA. „Þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir voru einhverjir sem keyptu af einhverjum heimasíðum og áttu að fá miðana upp á hótel til sín, en miðarnir skiluðu sér ekki,“ segir Klara.

Hún segir að KSÍ reyni að eiga einhverja miða til þess að koma fólki til bjargar ef það lendir í miðavandræðum, en engir slíkir miðar hafi verið til á Argentínuleikinn og því tókst ekki að hjálpa þeim fjölskyldum sem voru sviknar um miða.

Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi. Argentískir stuðningsmenn …
Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi. Argentískir stuðningsmenn voru í miklum meirihluta á vellinum í gær. AFP

Tölfræðilega líklegra að Argentínumaður fái miða í frjálsri sölu en Íslendingur

Spurð út í mikinn fjölda Argentínumanna á leik Íslands og Argentínu í gær og hvort eitthvað hafi verið misjafnt í skiptingu miðanna á milli stuðningsmanna beggja liða segir Klara að skiptingin hafi vissulega verið mjög ójöfn en ekki sé hægt að fullyrða um hvort rangt hafi verið staðið að skiptingu miðanna.

„Það voru einhverjir miðar seldir meira en ári fyrir mót. Argentínskir stuðningsmenn eru kannski reyndari og klókari og voru búnir að tryggja sér miða löngu fyrir mótið. Ein milljón miða fór í almenna sölu og það er tölfræðilega líklegra að Argentínumaður fái miða en Íslendingur,“ segir Klara.

Hún segir þó að þetta verði skoðað og hún svari ekki fyrir miðasölumál FIFA. „Kannski eru eðlilegar skýringar, en það hefur verði lítið um svör frá FIFA. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað gruggugt við þetta eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert