Hjólreiðafólk sé meðvitað um blinda svæðið

Ljósmynd/Styrmir Kári

Mikil hætta hefur skapast við Klettagarða og Vatnagarða að undanförnu vegna aukinnar hjólreiðaumferðar. Þetta segir Haukur Jón Friðbertsson, vörubílstjóri, sem segist verða var við mikla hjólaumferð á vinnusvæðinu. Þar séu hann og fleiri vörubílstjórar í þungaflutningum og með því skapist mikil hætta fyrir hjólreiðafólk, sem hjóli reglulega á vinnusvæðinu utan hjólreiðastíga. Vörubílstjórar hafi auk þess svokallaðan „blindan punkt“ hægra megin við flutningabifreiðarnar sem geri þeim erfitt að sjá ef hjólreiðamenn reyni að taka fram úr bifreiðunum.

Hefur áhyggjur af hættunni

„Það líður ekki sá dagur sem við sjáum ekki fullt af hjólreiðamönnum, eða nánast klukkutími,“ segir Haukur sem hefur áhyggjur af þeirri hættu sem skapast af samgangi hjólreiðafólks og þungaflutningabifreiða. „Við reynum að virða hvert annað eins og við getum, en þetta er mjög óþægilegt því við erum með þennan blinda punkt hægra megin við flutningabifreiðarnar þar sem við sjáum ekki hjólin og hjólreiðafólkið reynir að komast fram úr okkur þar.“

Haukur segist sjálfur hafa lent í því að hafa naumlega getað stoppað fyrir hjólreiðamanni sem reyndi að taka fram úr flutningabíl sem hann stýrði og einnig hafi hann orðið vitni af öðrum tilvikum þar sem litu hafi munað að illa færi þegar hjólreiðafólk fór af gangstígum og út á umferðargötur á miklum hraða.

Haukur Jón Friðbertsson.
Haukur Jón Friðbertsson. Ljósmynd/Aðsend

Blindi punkturinn hættulegur

„Fólk þarf að átta sig á því að stærstu og þyngstu bílar landsins eru þarna. Flutningabílarnir geta verið um 26 tonn að þyngd,“ segir Haukur. Hann bætir við að það þurfi að brýna fyrir hjólreiðafólki blinda svæðið í námunda við flutningabifreiðar, þ.e. að taka ekki fram úr flutningabifreið hægra megin við hana, vegna hættunnar sem það skapar. Hann segist hafa rætt við bifhjólafólk sem kannist við blinda punktinn og reyni að forðast að koma vörubílstjórum að óvörum með því að taka fram úr þeim hægra megin.

Hann segist vilja benda á að aðstæður til hjólreiða séu hættulegar á flutningasvæðinu en segir að þrátt fyrir það sé algengt að hjólreiðafólk sé þar á ferli á götunni og stefni því sjálfum sér og öðrum í hættu með því að keyra í gegn um eitt mesta iðnaðar og þungaflutningasvæði borgarinnar.

Vilja ala hjólreiðafólk rétt upp

María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðaþjálfari, segist sammála Hauki Jóni varðandi hættulegar aðstæður til hjólreiða í þessu tiltekna hverfi. Leiðin um iðnaðarhverfið hafi verið hluti af svokölluðum Reykjavíkurhring en hún sneiði nú hjá svæðinu með sína hjólreiðahópa. Námskeið Maríu Agnar hafa m.a. það markmið að gera hjólreiðafólk öruggara. „Við viljum ala fólk rétt upp í þessu,“ segir María Ögn. Þá segist hún oft sjá fólk hjóla á stöðum þar sem hjólreiðafólk ætti alls ekki að vera og oftar en ekki sé það þekkingarleysi á hjólaleiðum sem valdi því.

 „Við hjólum á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og reynum að sýna fólki réttar leiðir. Þetta er nokkurs konar umhverfisfræðsla,“ segir María Ögn. „Hjólreiðafólk þarf að sýna ábyrgð og velja stígaleiðir sem hægt er að fara frekar en að fara inn í svona aðstæður.“

María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðaþjálfari segir hjólreiðafólk þurfa að sýna ábyrgð.
María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðaþjálfari segir hjólreiðafólk þurfa að sýna ábyrgð. mbl.is/Árni Sæberg

Landrými til staðar fyrir hjólreiðastíga

Varðandi „blinda punktinn“ sem Haukur minnist á segir María að margt hjólreiðafólk sem komi nýtt inn í hjólreiðaíþróttina kynni sér ekki umhverfi sitt. „Það er mikið þekkingarleysi til staðar, einnig varðandi það að meta hvernig er að keyra á stórum bíl. Það er eflaust fólk sem áttar sig ekki á því hvað hjólreiðamaðurinn er lítill miðað við svona stóra trukka.“

Á vefnum hjólreiðar.is er að finna leiðbeiningar fyrir hjólreiðafólk um hvernig skuli haga hjólreiðum í námunda við löng ökutæki, en þar segir:

Blind svæði þar sem ökumenn sjá ekki til eru stærri í löngum ökutækjum en fólksbílum eða litlum sendibílum. Ef hjólað er á blinda svæðinu sér bílstjórinn ekki hjólreiðamanninn og hjólreiðamaðurinn sér ekki fram fyrir sig. Ef hjólreiðamaður sér ekki hliðarspegil ökutækisins fyrir framan sig sér ökumaðurinn hann ekki heldur. Hjólreiðamaður ætti að halda sig þar sem hann sést í hliðarspeglinum eða í öruggri fjarlægð fyrir aftan.

Aldrei á að fara hægra megin fram úr löngu ökutæki nema maður sé alveg viss um að það beygji ekki meðan tekið er fram úr því, ekki einu sinni á hjólarein.

María Ögn bætir við það myndi bæta umhverfi hjólreiðafólks á þessum slóðum til muna ef Reykjavíkurborg myndi leggja hjólreiðastíg meðfram allri Sæbrautinni. „Það er landrými til staðar, það er bara ljótt gras þarna. Þá þyrfti fólk ekki að fara yfir Sæbrautina og inn í hverfi þar sem engir hjólreiðastígar eru og þaðan aftur út á Sæbraut,“ segir María Ögn að lokum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert