Stolið frá leigusala en fær enga aðstoð

Maðurinn leigði íbúð sína út með húsgögnum.
Maðurinn leigði íbúð sína út með húsgögnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Maður sem leigði íbúð sína öðrum manni fær hvorki hjálp frá lögreglu né lögmönnum í kjölfar þess að leigjandi hans stal öllum húsgögnum og búnaði úr íbúð og bílskúr mannsins. Hann brá því á það ráð að auglýsa eftir lögmanni í atvinnublaði Fréttablaðsins í gær. Þess vegna hafði mbl.is samband við leigusalann, sem heitir Hörður Þór Ástþórsson. 

Hörður leigði út íbúð sína með húsgögnum eftir að hann lenti hjá umboðsmanni skuldara og þegar íbúðin var komin í eigu Íbúðalánasjóðs vildi hann fá húsgögn sín aftur. Þegar Hörður krafði manninn, sem nú leigir íbúðina af Íbúðalánasjóði, um húsgögn sín vildi maðurinn fá tryggingarfé sitt til baka áður en hann afhenti húsgögnin. 

Það var þá sem hann áttaði sig á því að ekki væri allt með felldu og komst að því að bæði íbúðin og bílskúrinn væru orðin galtóm og ekkert þar eftir nema tvær saumavélar. Hörður átti þar mikið af húsgögnum, auk þess sem verkfæri upp á nokkrar milljónir króna, allur húsbúnaður og persónulegir muni höfðu verið í bílskúrnum. „Ég kærði manninn til lögreglunnar. Hún sagði bara að þetta væri einkamál og að ég yrði að fara í einkamál,“ segir hann.

Í kjölfar auglýsingarinnar hringdi í Hörð annar maður sem hafði lent í svipuðu atviki fyrir nokkrum árum, sem var í sömu stöðu og fékk enga aðstoð lögreglu. Eftir að hafa leitað til nokkurra lögmanna sem ekki vildu taka mál Harðar að sér fann hann einn slíkan sem sérhæfir sig í svona málum, en sá hafði svo mikið að gera að hann gat ekki tekið til sín nýjan viðskiptavin.

Hörður segir manninn vera í pólskri mótorhjólaglæpaklíku sem sé starfrækt á Íslandi. „Það er bara þannig að ef það snýst eitthvað um brot sem Pólverjar fremja þá gerir lögreglan ekki neitt. “

Hann vildi vekja athygli á málinu, en segir líklegt að enn fleiri hafi lent í svipuðu atviki og enga aðstoð fengið. Hann óskar enn eftir lögfræðingi vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert