Vatnsnotkun lítil á meðan á leik stóð

Þessi héldu í sér á meðan leikurinn stóð yfir.
Þessi héldu í sér á meðan leikurinn stóð yfir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikur Íslands og Argentínu á HM í gær hafði mikil áhrif á vatnsnotkun Reykvíkinga í gær, en eins og af grafinu hér að neðan má lesa hafa Íslendingar að mestu leyti haldið í sér á meðan á leik stóð. Margir hafa þó nýtt hálfleikinn til þess að fara á salernið.

Í tilkynningu frá Veitum segir að áhugaverðar upplýsingar um hegðun og atferli borgarbúa úr skráningu á því magni kalds vatns sem fór í gegn um vatnsveituna frá því klukkan 9 í gærmorgun og fram eftir degi, en dökka línan á grafinu sýnir vatnsnotkun þann 9. júní en ljósbláa svæðið notkunina í gær, 16. júní.

Kaldavatnsnotkun í Reykjavík á leikdegi Íslands og Argentínu.
Kaldavatnsnotkun í Reykjavík á leikdegi Íslands og Argentínu. Graf/Veitur

Íslendingar virðast hafa tekið daginn óvenju snemma á fyrsta leikdegi Íslands á HM, og segir í tilkynningu Veitna að leiða megi líkum að því að fólk hafi farið í sturtu, þvegið þvott, vaskað upp og sinnt öðrum „vatnstengdum erindum“ fyrr en venjulega svo að þeim væri lokið áður en leikurinn hæfist.

Notkunin náði hámarki klukkan 11, minnkaði hratt eftir það og hríðféll svo rétt fyrir klukkan 13. Vatnsnotkun minnkaði á meðan á fyrri hálfleik stóð, og minnkar enn þegar mörk Argentínu og Íslands voru skoruð á 19. og 23. mínútu leiks.

Vatnsnotkunin jókst svo snögglega þegar flautað var til leikhlés en hríðféll að nýju þegar seinni hálfleikur hófst. Þegar leiknum lauk virðist sem margir hafi skellt sér á klósettið en fylgst svo með umfjöllun um leikinn í um hálfa klukkustund, en eftir það komst jafnvægi á vatnsnotkun borgarbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert