Dvalarleyfi afgreidd á 180 dögum

Útlendingastofnun er að Dalvegi 18 í Kópavogi
Útlendingastofnun er að Dalvegi 18 í Kópavogi mbl.is/Hari

Vegna mikillar fjölgunar umsókna um dvalarleyfi hefur Útlendingastofnun ákveðið að lengja viðmið um afgreiðslutíma fyrir umsókn um fyrsta leyfi úr 90 dögum í 180 daga. Jafnframt hefur verið ákveðið að lengja viðmið um afgreiðslutíma umsókna um íslenskan ríkisborgararétt úr sex til átta mánuðum í tólf mánuði. Þetta kemur fram á vef Útlendingastofnunar.

Umsóknum um dvalarleyfi á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Samanlagður fjöldi umsókna um fyrstu dvalarleyfi og endurnýjanir jókst um 25% árið 2016 og önnur 25% árið 2017.

Í tölum þýðir þetta fjölgun úr 3.735 í 5.850 umsóknir milli áranna 2015 og 2017. Á sama tíma hefur stofnunin ekki getað fjölgað starfsfólki á leyfasviði eins og nauðsynlegt væri til að viðhalda sama afgreiðsluhraða og áður og fyrir vikið hefur biðtími umsækjenda lengst. Þannig voru 85% allra umsókna árið 2017 afgreiddar innan 90 daga en það sem af er árinu 2018 hefur hlutfallið farið niður í 70%. Umsóknum sem bíða afgreiðslu hefur samhliða fjölgað mjög og eru nú rúmlega 1.700, segir á vef Útlendingastofnunar..

Frá því í upphafi árs hafa umsóknir um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku verið afgreiddar í flýtimeðferð gegn þjónustugjaldi og hefur eftirspurn eftir þeirri þjónustu verið mikil. Stofnunin hefur hins vegar ekki enn fengið fjármagn til að standa undir þjónustunni og hefur hún því haft neikvæð áhrif á afgreiðslutíma almennra umsókna. Í ljósi þessa hefur viðmið um afgreiðslutíma í flýtimeðferð gegn þjónustugjaldi verið lengt úr 10 virkum dögum í 30 daga frá því að greitt er fyrir umsókn og flýtimeðferð.

1.100 sóttu um ríkisborgararétt í fyrra

„Umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt hefur fjölgað lítillega undanfarin ár og voru um 1.100 árið 2017. Á fáum árum hefur hlutfall umsókna um íslenskan ríkisborgararétt sem lagðar eru fyrir Alþingi hins vegar hækkað umtalsvert, úr 12% árið 2015 í 28% árið 2017, en þær umsóknir hafa til þessa einnig verið unnar af Útlendingastofnun.

Vinnsla umsókna um ríkisborgararétt sem lagðar eru fyrir Alþingi er mun tímafrekari en vinnsla umsókna sem afgreiddar eru af stofnuninni sjálfri og heldur nú starfsmönnum ríkisborgarateymis uppteknum nokkra mánuði á ári. Þetta hefur haft í för með sér að umsóknum um ríkisborgararétt sem bíða afgreiðslu stofnunarinnar hefur fjölgað og biðtími umsækjenda lengst. Þannig bíða nú rúmlega 500 umsóknir um ríkisborgararétt afgreiðslu hjá stofnuninni og þar af eru 155 umsóknir nú þegar eldri en sex mánaða gamlar.

Af þessum sökum hefur viðmið um afgreiðslutíma umsókna um íslenskan ríkisborgararétt verið lengt úr sex til átta mánuðum í tólf mánuði. Umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt verða því að gera ráð fyrir að liðið geti allt að tólf mánuðir frá því að umsókn var lögð fram og greidd og þar til hún er tekin til vinnslu,“ segir á vef stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert