„Falleg aðgerð í minningu bróður hans“

Eva bindur vonir við að Karl Steinar geri það sem …
Eva bindur vonir við að Karl Steinar geri það sem hann geti til að komast að afdrifum Hauks. Ljósmynd/Brian Sweeny

„Þegar ég hitti hann þá sá ég að hann vill leysa þetta eða gera það sem hann getur til þess. Hann er byrjaður á því að gera eitthvað sem við teljum að þurfi að gera og er líklegt að skili árangri, en ég vil ekki fara nákvæmlega út í hvað það er. Mér fannst eins og hann tæki okkur alvarlega,“ segir Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem saknað hefur verið frá því í byrjun mars. Hann barðist við hlið Kúrda gegn íslamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrin-hérað í Sýrlandi, þar sem hann er talinn hafa fallið. Engar sannanir hafa þó komið fram um að hann sé látinn.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur tekið við rannsókn á hvarfi Hauks, að sögn Evu. Hún er mjög ánægð með að hann hafi tekið við málinu og hefur góða tilfinningu fyrir því að hann geri allt sem í hans valdi stendur til að komast að afdrifum Hauks. Henni finnst fjölskyldan loksins vera tekin alvarlega, en er þó meðvituð um að það geti farið svo að ekkert komi út úr rannsókninni.

„Ég ætla ekkert að halda því fram að hann sé einhver dýrlingur eða fær um að leysa málið eða neitt slíkt, en við finnum fyrir vilja til þess. Ég hitti hann fyrst í síðustu viku og ég hafði enga sérstaka trú á því, þrátt fyrir að hann hefði mikla reynslu og hefði verið að vinna hjá Europol, að hann hefði meiri áhuga heldur en aðrir,“ segir Eva, en annað kom á daginn.

„Hvorki heimalningur né hálfviti“

Í yfirlýsingu sem aðgerðarhópurinn Hvar er Haukur? sendi frá sér í gær í tilefni að gjörningi þar sem íslenska fánanum var skipt út fyrir þann tyrkneska á þaki Stjórnarráðsins, kom fram að nú væri tekinn við málinu „lögreglumaður sem er hvorki heimalningur né hálfviti“ og að hann hafi tekið skref í átt til alvöru rannsóknar. Eva segir í samtali við mbl.is að þetta orðalag sé frá henni komið. Það hefur verið hennar upplifun, fram að þessu, að lögreglan hafi ekki hlustað á aðstandendur Hauks og að öllum ábendingum hafi verið stungið ofan í skúffu.

„Mitt svekkelsi út í lögregluna upphaflega var að ég sá að þeir voru ekki að gera neitt, en ég hef trú á Karli Steinari. Ástæðan fyrir því að ég kalla þá heimalninga og hálfvita er sú að þegar við spurðum að því, þarna fyrst, hvort þeir gæfu því yfir höfuð séns að Haukur væri á lífi, af því þá áttum við allt eins von á því að hann væri á lífi, þá var skýringin sú að hans væri leitað eins og sjómanns sem hefði fallið útbyrðis eða ferðamanns sem hefði týnst á hálendingu. Semsagt ekki leitað,“ segir Eva sem var verulega ósátt við þá nálgun á málið.

Hauks hefur verið saknað frá því í byrjun mars.
Hauks hefur verið saknað frá því í byrjun mars.

„Ég hafði alltaf á tilfinningunni, þó ég hafi ekkert fyrir mér í því nema viðbrögð lögreglunnar, að það væri ekki tekið alvarlega þegar við vorum að benda á að það væri möguleiki á því Haukur væri í á lífi. Allar ábendingar sem við komum með voru settar ofan í skúffu. Eins og þegar tyrkneskir miðlar sögðu frá því að Tyrkir ætluðu að senda líkið heim. Ég hélt að það yrði eitthvað gert með það, en það var ekkert gert.“

Lögreglan getur ekki beitt þrýstingi

Eva segir lögreglu ekki hafa haft neitt frumkvæði að því að samband við fjölskyldu Hauks. Þau hafi átt langmest samskipti við utanríkisráðuneytið vegna málsins. „Ég hafði miklu meiri trú á ráðuneytinu. Þó ég hafi ekki neitt sérstaka trú á Guðlaugi Þór persónulega eða sem stjórnmálamanni þá hélt ég að sem ráðherra myndi hann taka á sig rögg af því þetta er svona mál,“ segir Eva og á þar við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Hún bendir á að það séu ákveðnar aðgerðir sem séu aðeins í valdi stjórnvalda að framkvæma. „Lögreglan getur rannsakað mannshvörf og sakamál en hún getur ekki sett pólitískan þrýsting á stjórnvöld í Tyrklandi. Þannig ráðuneytið verður að beita sér fyrir því að til dæmis Rauða krossinum verði hleypt inn á svæðið til að leita. Við getum ekki búist við því að lögreglan fari að jagast í þeim með það.

Ég er ekkert að tala um að þeir eigi að fara í einhvern aktivisma gagnvart Tyrklandi, lýsa yfir stríði eða eitthvað slíkt. Það er ekkert ódiplómatískt við að spyrja af hverju Rauði krossinn hefur ekki fengið að fara inn á svæðið. Ráðuneytin láta nánast eins og það þurfi ekki að gera neitt meira en að spyrja einhverja sendiherra hvort þeir viti eitthvað eða geti eitthvað gert.“

Ánægð með soninn sem flaggaði tyrkneska fánanum 

Það var bróðir Hauks, Darri Hilmarsson, sem handtekinn var á þaki Stjórnarráðsins í gær eftir að hafa dregið tyrkneska fánann að húni. Með þessum gjörningi vildi aðgerðarhópurinn Hvar er Haukur? vekja athygli á aðgerðarleysi stjórnvalda í málinu. Í yfirlýsingu frá hópnum kom fram að tyrkneska lögreglan hefði ráðlagt íslenska utanríkisráðuneytinu að spyrja ekki stjórnvöld þar í landi út í hvað hefði orðið um lík þeirra sem féllu í Afrín. „Þar sem sú und­ar­lega staða er uppi að tyrk­neska lög­regl­an stjórn­ar því hvernig ís­lensk ráðuneyti haga leit sinni að ís­lensk­um rík­is­borg­ara, er vel við hæfi á þjóðhátíðar­degi Íslend­inga að gera þessi óvæntu valda­skipti sýni­leg,“ sagði í yfirlýsingu frá hópnum vegna gjörningsins.

Eva er mjög ánægð með hvernig til tókst og hrósar syni sínum fyrir sinn þátt. „Ég er ofboðslega ánægð með þessa aðgerð. Hún tókst frábærlega vel og kallast á við þessa aðgerð sem var þarna fyrir 10 árum, sem mér finnst mjög fallegt. Þetta eru hvort tveggja mjög pólitískar aðgerðar og þetta er mjög falleg aðgerð í minningu bróður hans,“ segir Eva og vísar til þess þegar Haukur flaggaði fána Jörundar hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.

Hún er ekki ósátt við að Darri hafi verið handtekinn, það hafi verið viðbúið, en er hneyksluð á framgöngu lögreglu og segir hafa verið brotið á honum.

Settu hann og sjálfa sig í stórhættu

„Við áttum alveg eins von á því að hann yrði handtekinn. Haukur var auðvitað handtekinn á sínum tíma. En það sem ég átti ekki von á og er dálítið hneyksluð á er að þeir skyldu fara upp á þakið. Fólk sem fer upp á þak kemur einhvern tíma niður aftur. Þeir fóru upp á þakið og hálf drógu hann niður. Ég tel að þeir hafi sett hann og sjálfa sig í stórhættu með því. Í staðinn fyrir að bíða eftir því að hann kæmi niður. Svo sést á myndbandinu sem var tekið að sérsveitarmaður hendir límbandsrúllu sem hann var með, aftur fyrir sig og niður af þakinu, án þess að skeyta um það hvort hún myndi fara í annað fólk,“ segir Eva.

Tyrkneski fáninn blakti tímabundið yfir Stjórnarráðinu í miðborg Reykjavíkur í …
Tyrkneski fáninn blakti tímabundið yfir Stjórnarráðinu í miðborg Reykjavíkur í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað finnst manni asnalegt að þessi lög skuli gilda að lögreglan geti bara handtekið alla sem henni sýnist. Þau lög gilda samt, en það var brotið á honum.“

Hún segist hafa farið upp á lögreglustöð ásamt manni sínum, Einari Steingrímssyni, og látið vita að Darri væri bæði síma- og lyklalaus. Þau hafi skilið eftir símanúmerin sín og beðið um að honum yrði gefinn kostur á að hringja í þau til að láta sækja sig, þegar honum yrði sleppt.

„Hann margbað um að fá að hringja en hann fékk ekki símtal. Honum var bara sagt að aðstandendur hans vissu að hann væri þarna og það var bara nóg. Þarna var verið að brjóta á honum og ég er auðvitað ekki sátt við það.“

Eva segir þau enn ekki vita hvor það verða einhverjir eftirmálar vegna málsins af hálfu lögreglu. „Það verður bara að koma í ljós, en við tökumst bara á við það þegar þar að kemur. Mér finnst alveg fáránlegt ef það á að fara að standa í einhverjum málarekstri út af einhverjum fána, en við hreinlega vitum það ekki. Og okkur er hreinlega alveg sama. Ég er bara mjög ánægð með hann Darra og þessa aðgerð.“

Slökkviliðið kom á staðinn, tók tyrkneska fánann niður niður og …
Slökkviliðið kom á staðinn, tók tyrkneska fánann niður niður og setti þann íslenska á sinn stað. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert