Framkvæmdum við Geirsgötu lýkur í haust

Geirsgata er tvær akreinar til vesturs, en aðeins ein í …
Geirsgata er tvær akreinar til vesturs, en aðeins ein í austur, en það stendur til bóta. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Framkvæmdum við Geirsgötu og gatnamót við Lækjargötu og Kalkofnsveg miðar vel áfram og stefnt er á að framkvæmdum á gatnamótunum ljúki í haust. Búið er að hleypa umferð á allar fjórar akreinar Kalkofnsvegar, auk þess sem ný umferðarljós á gatnamótunum hafa verið virkjuð.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að umferð verði áfram hæg en gangi þó betur fyrir sig á þessu svæði, einkum hjá þeim sem eiga leið um Geirsgötu til austurs. Þar er enn aðeins ein akrein, en það stendur til bóta. „Við byrjum á næstu dögum að ganga frá dúk, snjóbræðslu og gangstéttum sunnan við Geirsgötu. Þeirri vinnu á að ljúka í ágúst og þá verður hægt að opna báðar akreinar Geirsgötunnar til austurs,“ er haft eftir Þór Gunnarssyni, verkefnisstjóra Reykjavíkurborgar, á vef borgarinnar.

Lækjargatan milli Hverfisgötu og Geirsgötu verður hins vegar áfram ein akrein í hvora átt fram eftir hausti. Í tengslum við breytt umferðarskipulag voru merkingar á götum og leiðaskilti yfirfarin til að tryggja öryggi vegfarenda.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert