Takmarkaðir möguleikar á jarðstrengjum

Til stendur að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum.
Til stendur að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

Óvíst er hversu stóran hluta af flutningskerfi raforku á Vestfjörðum er hægt að leggja í jörðu, en Landsnet vinnur nú að greiningu á því. Greiningin er hluti af viðræðum Landsnets og Vesturverks um það hvernig mögulegri tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfi raforku verði háttað.

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, sem hyggst byggja Hvalárvirkjun í Árneshreppi, sagði í samtali við mbl.is í apríl að það væri skýr krafa fyrirtækisins að virkjunin yrði tengd meginflutningskerfi raforku með jarðstrengjum. „Við get­um ekki rekið þarna virkj­un og átt svo að treysta á flutn­ing raf­orkunn­ar um loftlínu á einu al­versta veðravíti lands­ins. Það kem­ur ekki til greina,“ sagði Gunnar Gaukur.

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is að of snemmt sé að segja til um hvort jarðlínulögn yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem Vesturverk hefur lagt til, sé möguleg. Viðræður Landsnets og Vestuverks hafa staðið yfir frá því í haust.

Jarðlínur yfir bæði Ófeigsfjarðarheiði og Kollafjarðarheiði eru til skoðunar í greiningum Landsnets, en Steinunn segir að staðsetningar jarðstrengja þurfi að skoða í samhengi og því sé of snemmt að segja til um hvar þeir verði lagðir.

„Niðurstöður liggja ekki fyrir að svo stöddu enn ljóst er að vegna tæknilegra hindrana og raffræðilega veiks kerfis á Vestfjörðum eru möguleikar til jarðstrengslagna takmarkaðir,“ segir Steinunn.

Kostnaðarskipting liggur ekki fyrir

Hún segir einnig aðspurð að ekki sé búið að ákveða staðsetningu nýs tengipunktar í Ísafjarðardjúpi, en að unnið sé að því.  Ekki er heldur búið að ganga frá samkomulagi á milli Landsnets og Vesturverks um kostnaðarskiptingu aðilanna vegna tengingar fyrirhugaðrar virkjunar.

Steinunn segir að í þeim efnum verði eins og alltaf unnið eftir verklagi og skilgreiningu í raforkulögum um skil á milli notenda og flutningsfyrirtækis.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

„Meginreglan er að Landsnet sér um framkvæmdir við að tengja tengipunkt við meginflutningskerfið og virkjunaraðilinn þarf að bera umframkostnað af tengingu virkjunarinnar skv. reglum hverju sinni,“ segir Steinunn.

Hún segir það ekki liggja fyrir hvort tenging Hvalárvirkjunar við meginkerfið muni hafa áhrif á gjaldskrá Landsnets til notenda, en að í grunninn sé flutningsfyrirtækinu ekki heimilt að varpa kostnaði vegna tengingar nýs aðila við kerfið á núverandi notendur kerfisins í gegnum gjaldskrána.

„Þess vegna er unnið eftir ákveðnum reglum hverju sinni til að tryggja slíkt. Einnig er útgefin stefna fyrirtækisins að halda gjaldskrá stöðugri og því er unnið eftir því,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert