Jákvætt sjálfbærnismat Hellisheiðarvirkjunar

Hellisheiðarvirkjun er fyrsta jarðvarmavirkjunin til þess að verða tekin út …
Hellisheiðarvirkjun er fyrsta jarðvarmavirkjunin til þess að verða tekin út með nýjum matslykli. mbl.is/RAX

Samkvæmt sjálfbærnismati á rekstri Hellisheiðarvirkjunar hefur virkjunin lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Hún hefur hinsvegar mikilvæg jákvæð áhrif á félagslega og hagræna þætti, samkvæmt úttektinni og fær hæstu einkunn í sex þáttum af fjórtán.

Þá kemur fram að þetta sé afleiðing þess að „virkjunin gefur hreina og ódýra raforku og heitt vatn sem mætir þeirri þörf sem er á höfuðborgarsvæðinu.“

Sjálfbærnismatið er á grundvelli matslykli, fyrsti sinnar tegundar fyrir jarðvarmavirkjanir, sem er í þróun af íslenskum stjórnvöldum og jarðgufufyrirtækjum hérlendis. Matslykillinn, sem nefnist Geothermal Assessment Protocol eða GSAP, byggir á samskonar alþjóðlegum lykli fyrir vatnsaflsvirkjanir og er Hellisheiðarvirkjun fyrsta virkjunin í rekstri sem sætir þessari úttekt, en niðurstöðurnar voru kynntar á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Orkuveitunnar í morgun.

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segist ánægður með niðurstöðuna í samtali við mbl.is. Hann segir úttektina sýna að hægt er að bæta reksturinn og að hún staðfesti þann árangur sem náðst hefur. Til stendur að kynna matslykilinn á alþjóðlegri ráðstefnu árið 2020.

Teknir eru út 14 þættir og er rekstur virkjunarinnar til fyrirmyndar í sex þeirra og fannst ekkert frávik frá góðum starfsháttum í úttektinni.

Hellisheiðarvirkjun fékk hæstu einkunn í stjórnun umhverfis- og samfélagsþátta, áreiðanleika búnaðar og skilvirkni í rekstri, ábáta af verkefninu, áhrif á líffræðilega fjölbreytni, skjálftavirkni og landsig ásamt loft- og vatnsgæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert