Matur og menning í Viðey

Íslenska kokkalandsliðið lék á alls oddi í Viðey á laugardaginn.
Íslenska kokkalandsliðið lék á alls oddi í Viðey á laugardaginn. Ljósmynd/ Hörður Ásbjörnsson

Það var margt um að vera í Viðey á laugardaginn þar sem landkynningaverkefnið #TeamIceland hélt viðburð sem varpa átti sérstöku ljósi á íslenska matarmenningu. Tæplega hundrað manna blanda af erlendum fjölmiðlum, ferðamönnum og Íslendingum sóttu viðburðinn sem var skemmtilegt tækifæri til að sýna gæði íslenskrar matargerðar og hráefnis.

Íslenska kokkalandsliðið töfraði fram mikla matarveislu þar sem áherslan var fyrst og fremst á íslensk gæðahráefni á borð við lambakjöt, fiskmeti og skyr. Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, lék svo undir við góðar viðtökur viðstaddra.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, sagði viðburðinn heppnast gífurlega vel.

„Allt hélst vel í hendur. Bæði maturinn og menningin sem pössuðu svo vel við úrslit dagsins,“ en íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði einmitt jafntefli við lið Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi á laugardaginn eins og kunnugt er orðið.

Sigríður segir það ekki á dagskrá á næstunni að halda samskonar viðburð aftur en að það sé aldrei að vita að það verði gert einhvern tímann í framtíðinni.

Áherslan var á íslensk gæðahráefni.
Áherslan var á íslensk gæðahráefni. Ljósmynd/ Hörður Ásbjörnsson
Á meðal gesta voru erlendir blaðamenn, ferðamenn og starfsmenn þeirra …
Á meðal gesta voru erlendir blaðamenn, ferðamenn og starfsmenn þeirra íslensku fyrirtækja sem komu að verkefninu. Ljósmynd/ Hörður Ásbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert