Mið-Ísland skemmti landsliðinu

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, og Björn Bragi Arnarsson, einn Mið-Íslandsmanna, eftir …
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, og Björn Bragi Arnarsson, einn Mið-Íslandsmanna, eftir að hópurinn skemmti fjölmiðlamönnum í Kabardinka í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fjórir úr uppistandshópnum Mið-Íslandi skemmti íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu, þjálfarum liðsins og öðrum starfsmönnum, á hóteli liðsins í strandbænum Kabardinka við Svartahaf í kvöld. Að því loknu héldu skemmtikraftarnir til móts við íslenska fjölmiðlahópinn sem er ytra og óhætt að segja að frammistaða þeirra féll í góðan jarðveg.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari, Helgi Kolviðsson aðstoðarlandsliðsþjálfari og Guðmundur Hreiðarsson markvarðaþjálfari hlýddu á grínið með fjölmiðlamönnunum ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum landsliðsins.

Björn Bragi Arnarsson, Jóhann Alfreð Kristinsson, Dóri DNA og Bergur Ebbi Benediktsson voru allir í Moskvu um helgina og sáu leik Íslands gegn Argentínu. Þeir vörðu þjóðhátíðardeginum þar en flugu suður að Svartahafi í dag. Uppistandið á landsliðshótelinu gekk vel eins og búast mátti við; Bergur Ebbi sagði við blaðamann mbl. að hópurinn hefði óspart beint spjótum sínum að landsliðsstákunum sjálfum og þeir hefðu haft gaman af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert