Miðvikudagurinn verður bestur

Veðrið á hádegi á miðvikudag.
Veðrið á hádegi á miðvikudag. Veðurstofa Íslands

Spáð er norðanátt í dag og svalt verður fyrir norðan og rigning en þurrt og jafnvel bjart með köflum sunnanlands þar sem hiti fer líklega upp í 16 stig. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Síðdegis bætir í vind suðaustan til á landinu og gætu hviður undir Vatnajökli farið yfir 20 m/s. 

„Á morgun dregur úr vindinum og styttir upp fyrir norðan, en þykknar upp syðra með vætu af og til. Útlit er þó fyrir að það verði úrkomulítið í höfuðborginni. 

Á miðvikudag stefnir í fallegan og bjartan dag um allt land með frekar hægum vindi og verður því líklega heilt yfir besti dagur vikunnar (fyrir þá sem vilja hægan vind og sól),“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg átt með morgninum, víða 8-13 m/s í dag. Rigning N- og A-lands og hiti 4 til 9 stig, en rofar til sunnan heiða og hiti 10 til 17 stig. Bætir í vind SA-til undir kvöld.
Minnkandi norðlæg átt á morgun og styttir að mestu upp fyrir norðan, en vestlægari S-lands og væta með köflum. Kólnar heldur, einkum um landið S-vert.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 5-13 m/s og rigning eða skúrir fyrir norðan, en styttir upp þar síðdegis og dregur úr vindi. Vestlægari S-lands og væta með köflum, einkum SV-til. Hiti 4 til 13 stig, mildast SA-lands. 

Á miðvikudag:
Vestlæg átt 3-10 m/s og allvíða bjartviðri. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast S-lands. 

Á fimmtudag:
Suðvestlæg átt 8-13 m/s og þykknar upp um landið V-vert með rigningu síðdegis, en bjart A-til. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast A-lands. 

Á föstudag:
Suðlæg átt og rigning með köflum, en þurrt N- og A-til. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast NA-lands. 

Á laugardag:
Suðvestlæg átt og rigning um allt land. Milt í veðri. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir minnkandi suðlæga átt og rofar til með hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert