Ákærðir fyrir að halda tveimur konum í gíslingu

Árásin mun aðallega hafa beinst að annarri konunni sem var …
Árásin mun aðallega hafa beinst að annarri konunni sem var þá sambýliskona annars árásarmannsins. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðssaksóknari hefur ákært tvo karlmenn fyrir að halda tveimur konum í gíslingu í fjórar til sex klukkustundir á heimili annarrar konunnar og annars mannsins í júnímánuði fyrir tveimur árum. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. RÚV greinir frá.

Mun árásin aðallega hafa beinst að annarri konunni sem var þá sambýliskona annars árásáramannsins, en í ákæru kemur fram að hinn maðurinn hafi verið einn með konunum tveimur í fyrstu. Er honum gefið að sök að hafa ítrekað hótað þeim líkamsmeiðingum og svo ráðist á sambýliskonu hins árásarmannsins með því slá hana og halda henni á gólfinu.

Hann á að hafa slegið konuna tvisvar í andlitið og margoft með krepptum hnefa, skóhorni eða kylfu víðsvegar um líkamann, tekið hana kverkataki og þrengt að, klipið með töng í fingur hennar og skorið hár hennar með eggvopni. Báðir mennirnir eru svo ákærðir fyrir að hafa troðið peysu í og yfir munn hennar, að segir í frétt RÚV.

Samkvæmt ákærunni er sambýlismaður konunnar sagður hafa hótað báðum konunum ofbeldi og kynferðisofbeldi í gegnum síma. Hann kom svo á vettvang þar sem hann mun ítrekað hafa hótað þeim líkamsmeiðingum, gripið í hár hinnar konunnar og borið hníf að hálsi hennar og kinn. Hann mun einnig hafa klipið með töng í stóru tá hægri fótar sambýliskonu sinnar.

Þá er hann sagður hafa hótað að vinna henni mein, meðal annars með því að standa yfir henni með hamar á lofti og koma í veg fyrir að hin konan gæti hringt eftir hjálp í fyrrverandi kærasta sinn. 

Sambýliskona mannsins krefst þess að mennirnir tveir verði dæmdir til að greiða henni 1,5 milljónir en hin konan fer fram á eina milljón í skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert