Dagurinn engin tilviljun

Ljósmæður hafa verið lengi í kjaraviðræðum við ríkið.
Ljósmæður hafa verið lengi í kjaraviðræðum við ríkið. mbl.is/Árni Sæberg

Facebook-hópurinn „Mæður og feður standa með ljósmæðrum“ stendur fyrir samstöðufundi vegna kjarabaráttu ljósmæðra í tilefni af kvennréttindadegi íslenskra kvenna í dag. Samninganefnd ljósmæðra á fund við samninganefnd ríkisins í fyrramálið, en ljósmæður höfnuðu nýjum samningi með yfirgnæfandi meirihluta 8. júní.

Andrea Eyland Björgvinsdóttir, einn stofnenda hópsins, segir þá hækkun launa sem boðið var upp á í síðasta samningi svívirðilega lága. „Ég hef áhyggjur af því að þetta sé ekki tekið alvarlega vegna þess að þetta er stór kvennastétt.“ Tæplega 70% ljósmæðra greiddu atkvæði gegn samningnum en í honum fólst 4,21% launahækkun.

Andrea segist hafa nokkrar áhyggjur af fundinum á morgun þar sem það er mikilvægt að samið verði sem fyrst. Þó segir hún að þeir foreldrar sem að hópnum standi vilji umfram allt að ljósmæður fái þá launaleiðréttingu sem þær eigi skilið. Hún segir það enga tilviljun að fundurinn sé haldin í dag á hundrað og þriggja ára kosningaafmæli íslenskra kvenna. „Þetta er hrein kvennastétt og þess vegna ákváðum við að dagurinn í dag væri réttur.“

Fundurinn verður haldinn í Mæðragarðinum í Reykjavík við listaverkið Móðurást sem garðurinn dregur nafn sitt af. „Við viljum gera þetta á fallegan og kærleiksríkan hátt en þó með sterkum skilaboðum í þágu ófæddra barna. Fyrir þau getur þessi barátta verið upp á líf og dauða.“

Fundurinn hefst korter fyrir fimm og hvetur Andrea sem flesta til að mæta. Segir hún það afar mikilvægt að láta þær konur sem taki á móti börnunum okkar finna fyrir stuðningi í baráttu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert