Draumurinn kviknaði við fermingu

Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir komst inn í Joffrey ballettskólann í …
Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir komst inn í Joffrey ballettskólann í New York þar sem hún mun stunda atvinnudansnám frá og með haustinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er smátt og smátt að síast inn,“ segir Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir, 19 ára gömul ballettdansmær, sem hlaut nýverið inngöngu á atvinnudansnámsbraut við hinn virta Joffrey ballettskóla í New York. Sesselja hefur dansað ballett frá þriggja ára aldri og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún tvisvar sinnum verið valin til þess að keppa fyrir Íslands hönd í alþjóðlegri ballettkeppni, dansað í Eldborg með Sinfóníuhljómsveit Íslands, farið á ballettnámskeið erlendis og kennt ungum ballerínum við Listdansskóla Hafnarfjarðar.

Sesselja dansar verkið Serenade eftir George Balanchine.
Sesselja dansar verkið Serenade eftir George Balanchine. Ljósmynd/Aðsend

Komin nær drauminum

Sesselja útskrifaðist úr Listdansskóla Íslands í maí síðastliðnum eftir 11 ára skólagöngu, en áður var hún í Ballettskóla Guðbjargar Björgvins. 9 ára fór hún í inntökupróf fyrir ballettdeild Listdansskóla Íslands og komst inn. Hún var á klassískri braut og lærði einnig nútímadans.

„Skólinn hefur verið mitt annað heimili öll þessi ár,“ segir Sesselja. „Til að byrja með var ég í tímum þrjá daga í viku í klukkutíma til einn og hálfan klukkutíma í senn. Eftir því sem árin liðu bættust klukkustundirnar og dagarnir við þann tíma og síðustu ár hef ég æft sex daga vikunnar, þrjár klukkustundir í senn,“ segir Sesselja og því er ljóst að metnað og elju þarf til þess að sinna svo krefjandi áhugamáli. „Þetta hefur tekið mest allan minn frítíma en einhvern veginn hefur mér tekist að koma félagslífinu að líka. Ef maður á góða vini er þeim alveg sama og eru alveg til í að hitta mann í klukkutíma á sunnudegi.“

Sesselja segist hafa stefnt að því í nokkur ár að fara út í atvinnudansnám. „Við fermingaraldurinn kviknaði draumurinn um að ná langt. Þá fékk ég ferð til Osló í fermingargjöf frá ömmu og afa að sjá Þjóðarballett Noregs, sem sýndi þá Þyrnirós. Það opnaði augu mín og ég hugsaði með mér að þetta væri það sem mig langaði að gera, að geta dansað jafnvel aðalhlutverk í stórum ballett einn daginn. Síðan þá hefur það verið áþreifanlegt markmið hjá mér sem ég hef unnið að. Þetta hefur verið nokkuð fjarlægur draumur, en ég er að komast í rétta átt að honum núna,“ segir Sesselja.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýtir sumarfrí í dansinn

Sesselja hefur síðustu tvö ár verið valin sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegu sólódanskeppninni Stora Daldansen þar sem hún keppti í klassískum ballett með glæsilegum árangri svo eftir var tekið. „Í bæði skiptin gekk mér mjög vel, fékk rosalega góðar viðtökur úti og var hrósað af kennurum, dómurum og skólastjórnendum. Út frá þeirri keppni hef ég fengið mörg tækifæri, nú síðast tók ég þátt í The Phantom of the Opera í Hörpu í febrúar sem spratt einmitt út frá kepnninni.“

Dansinn hefur síðustu ár átt hug Sesselju allan og hefur hún m.a. nýtt sumarfrí til þess að fara erlendis á dansnámskeið. Aðspurð segir Sesselja aðdraganda inngöngunnar í Joffrey Ballet School hafa sprottið af slíkri ferð. „Síðasta sumar fór ég út á sumarnámskeið hjá American Ballet Theatre í New York og var þar í mánuð tæpan, en þar var einmitt staddur skólastjóri í Joffrey. Í nóvember sendi hann mér póst fyrir tilviljun og bað um að fá dansmyndband sent af mér, vegna þess að hann hefði áhuga á að bjóða mér inngöngu í skólann.“

„Fyrst var ég aðeins skeptísk á það því ég var ekki viss um að ég væri tilbúinn til þess að fara ein alla leið til Bandaríkjanna í dansnám. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að slá til og sækja um. Í mars fékk ég svo símtal frá mömmu þar sem hún segir mér að skoða póstinn minn. Þá kom í ljós að mér hafði verið boðið pláss við skólann,“ segir Sesselja.

Sesselja á sumarnámskeiði hjá American Ballet Theatre í New York.
Sesselja á sumarnámskeiði hjá American Ballet Theatre í New York. Ljósmynd/Aðsend

Leggur hart að sér til að ná langt

Námið er kostnaðarsamt en Sesselja hlaut styrk til námsins frá skólanum auk þess sem fjölskylda hennar styður þétt við bakið á henni. „Ég er svo heppin að eiga góða fjölskyldu sem styður mig í öllu sem ég geri og það kom ekkert annað til greina en að ég færi út fyrst mér var gefið þetta einstaka tækifæri.“

Sesselja segir að maður þurfi að fórna ýmsu til þess að ná langt í dansinum. „Það þarf auðvitað að fórna félagslífinu að einhverju leyti. Maður þarf kannski frekar að vera heima að sauma táskó heldur en að fara út og hitta vini sína. Eins velur maður að fara frekar á langar æfingar á meðan jafnaldrar geta farið á böll eða aðra slíka viðburði.“ Sesselja hefur fram að þessu verið á listdansbraut í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem hún segir góðan kost fyrir dansara sem vilja leggja metnað í dansinn. „Þau taka mikið tillit til þeirra krakka sem eru á Listdansbraut svo það hentar mér vel.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ballerínur þurfi ekki að vera horaðar 

Margir kunna að hugsa um staðalímynd ballerínunnar sem afar granna konu sem jafnvel vannærist til þess að mæta kröfum dansheimsins. Sesselja segir að það sé þó yfirleitt ekki raunin. „Það er ekki rétt, ég er ekki þannig og engin af mínum vinkonum úr dansinum. Maður þarf auðvitað að hugsa um matarræðið og reynir að vera í hollari kantinum, en við borðum annars það sem við viljum borða og pössum að lifa heilsusamlegu líferni. Bara eins og hver annar íþróttamaður.“

„Áður fyrr var það mögulega þannig að stúlkur þurftu að vera grindhoraðar til þess að ná langt í ballett, en í dag eru breyttar áherslur sem er mjög jákvætt. Flestir flokkar og skólar eru að leitast eftir heilbrigðu fólki sem er með vöðva. Við þurfum að geta framkvæmt erfiða dansa, halda stöðum og stokkið hátt. Til þess þarf líkamlegan styrk,“ segir Sesselja.

Draumur Sesselju er að komast inn í ballettdansflokk. „Það er svolítið erfitt að íslenski dansflokkurinn er ekki klassískur flokkur. Það væri gaman að á einhverjum tímapunkti sjá klassíska ballettinn verða stærri á Íslandi. Allar sýningar sem erlendu ballettflokkarnir hafa sýnt á Íslandi, bæði Sankti Pétursborgarballettinn sem hefur komið í nokkur ár og eins San Francisco ballettinn, hafa selst upp strax. Ég held að fólk sé alveg til í að sjá þetta og það væri auðvitað alveg ótrúlega gaman fyrir mig og aðra ballettunnendur að sjá klassíska ballettinn stækka enn frekar á Íslandi. En maður veit aldrei, kannski gerist það eftir nokkur ár,“ segir Sesselja að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert