„Heilbrigðiskerfi er byggt upp af fólki“

Marta bendir m.a. á að starfsfólk Landspítala hafi lýst opinberlega …
Marta bendir m.a. á að starfsfólk Landspítala hafi lýst opinberlega yfir áhyggjum af öryggi sjúklinga og að heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins kvíði sumrinu vegna manneklu. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala og hjúkrunarfræðingur segir í opnu bréfi til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að bæta þurfi kjör heilbrigðisstétta til þess að hægt sé að bjóða upp á heildstæða heilbrigðisþjónustu og að tíminn til sé þess núna.

„Það er mikilvægt að byggja hús, skapa gott umhverfi, hlúa að framtíðinni. Enn mikilvægara er að hafa í huga að heilbrigðiskerfi er og verður ekki byggt upp á húsum, heilbrigðiskerfi er byggt upp af fólki,“ segir Marta í bréfi sínu.

Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala.
Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala. Ljósmynd/Aðsend

Bréf hennar er svar við grein heilbrigðisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu síðasta laugardag undir yfirskriftinni „Næstu skref“, en þar fór Svandís yfir ýmis mál sem framundan eru varðandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og sagði sumarið góðan tíma til að nýta í þágu heildstæðrar heilbrigðisþjónustu.

Marta nefnir ýmis dæmi um stöðuna í heilbrigðiskerfinu í sumar, sem flest má rekja til manneklu.

Hún minnist á að hjartagátt Landspítala verði lokað í fjórar vikur vegna skorts á hjúkrunarfræðingum, sjö vikna lokun fíknigeðdeildar Landspítala vegna manneklu og kjarabaráttu ljósmæðra, sem Marta segir fyrirséð að hafi þær afleiðingar að ekki verði hægt að halda uppi öruggri þjónustu fyrir fæðandi konur og nýbura eftir 1. júlí.

Þá bendir Marta á að starfsfólk Landspítala hafi lýst opinberlega yfir áhyggjum af öryggi sjúklinga og að heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins kvíði sumrinu vegna manneklu.

Einnig hafi sumarið hafist með tæplega 50 lokuðum sjúkrarýmum á Landspítala vegna skort á hjúkrunarfræðingum og að „fordæmalaust álag“ sé á bráðamóttöku Landspítala, þar sem starfsfólk vanti á allt að 100 vaktir.

„Það eina sem framundan er, er meira álag. Vonandi gerist ekkert alvarlegt,“ ritar Marta, sem kallar sem áður segir eftir því að kjör heilbrigðistétta verði bætt og segir sumarið tímann til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert