„Kona fer í stríð“ sýnd á Ísafirði

Myndasýning verður haldin á Kaffi Galdri fyrr um daginn.
Myndasýning verður haldin á Kaffi Galdri fyrr um daginn. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

„Efni myndarinnar snertir málefni sem brenna á Vestfirðingum, hugmyndin er að í framhaldinu geti orðið samtal á milli fólks,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri og framleiðandi verðlaunakvikmyndarinnar Kona fer í stríð, í samtali við Morgunblaðið. Hann mun halda sérsýningu á kvikmyndinni í Ísafjarðarbíói kl. 17 síðdegis.

„Það er mikilvægt að vera ekki alltaf að predika fyrir trúaða, við þurfum líka að hlusta hvert á annað,“ segir Benedikt, í ljósi langra átaka á milli sjónarmiða verndunar og nýtingar hérlendis. 

Bæjarfulltrúum boðið í bíó

Á sýninguna er boðið sérstaklega bæjarfulltrúum Ísafjarðar og Bolungarvíkur, forsvarsmönnum VesturVerks og Vestfjarðastofu og á eftir verða pallborðsumræður sem Ragnar Bragason, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður, stýrir, með Benedikt, Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, Pétri Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, og Tómasi Guðbjartssyni lækni. Miðaverð verður lækkað og allir velkomnir á sýninguna.

Á leiðinni vestur heldur Tómas um klukkutíma ljósmyndasýningu og fyrirlestur á Kaffi Galdri á Hólmavík, þar sem myndir Tómasar, Ólafs Más Björnssonar augnlæknis og Ragnars Axelssonar ljósmyndara af fossum á Vestfjörðum verða sýndar. Sveitarstjórnarmönnum Árneshrepps er sérstaklega boðið og ókeypis verður inn. ernayr@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert