Mikil bleyta á Reykjanesbraut

mbl.is/Eggert

Varað er við hvössum vindhviðum við fjöll á Suðaustur- og Austurlandi í dag en von er á þungbúnu og svölu veðri víða á landinu. Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Suðurnesjum hefur rignt talsvert þar í nótt og er mikil bleyta á Reykjanesbrautinni sem situr í hjólförum sem getur verið varasamt og ökumenn beðnir um að sýna aðgát.

Búast má við allhvassri norðvestanátt suðaustan og austan til á landinu í fyrstu með hvössum vindhviðum við fjöll, sérstaklega við Hamarsfjörð. Ekki er ráðlegt að ferðast þar með aftanívagna eða á farartækjum sem taka á sig mikinn vind.

Á morgun brosir sólin

„Fremur þungbúinn og svalur dagur í dag og víða einhver væta, en fer heldur að birta til um landið norðvestanvert og suðaustanvert þegar líður á daginn en síðan í öðrum landshlutum í nótt.

Á morgun brosir sólin við landsmönnum og má búast við fremur hægum norðvestlægum áttum, bláum himni og hlýnandi veðri. Mikilvægt er fyrir þá sem eru á vestari helmingi landsins að njóta morgundagsins vel því strax á fimmtudag snýst í fremur stífa sunnanátt með rigningu vestan til á landinu, en áfram verður fínasta veður fyrir austan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðvestlæg átt 5-10 m/s vestan til, en 10-15 m/s austan til. Rigning eða súld norðan- og austanlands, en stöku skúrir vestanlands. Dregur úr vindi og úrkomu fyrir austan með morgninum, rigning með köflum um landið sunnanvert, en styttir upp fyrir norðan. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast suðaustanlands. Norðvestlæg átt á morgun 3-8 m/s og léttskýjað víðast hvar. Hiti 9 til 17 stig.

Á miðvikudag:
Vestan og norðvestan 3-10 m/s og víða bjart veður, en fer að þykkna upp vestan til á landinu um kvöldið. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast S-lands. 

Á fimmtudag:
Vaxandi sunnan- og suðvestanátt, 8-15 m/s og rigning um landið vestanvert eftir hádegi, en hægari vindur austantil og þykknar heldur upp. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast á A-landi. 

Á föstudag:
Suðvestan 5-13 m/s of og rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en þurrt og bjart að mestu norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Suðlæg átt og fer að rigna, fyrst suðvestan til, en lengst af þurrt norðaustan til. Hiti 10 til 16 stig, hlýjast norðaustan til. 

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt og skúrir, en úrkomulítið fyrir austan. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu og kólnar heldur í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert