Undirbúa alþjóðlega ráðstefnu um #metoo

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðherranefnd um jafnréttismál hefur lagt til að haldin verði alþjóðleg ráðstefna um #metoo-byltinguna í tengslum við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni. Stefnt er á að ráðstefnan fari fram næsta haust. 

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi nefndarinnar sem kom saman til fundar í forsætisráðuneytinu í dag í tilefni af kvenréttindadeginum, en í dag eru liðin 103 ár frá því að kon­ur 40 ára og eldri fengu kosn­inga­rétt og kjörgengi til Alþing­is. 

„Við erum enn í miðri byltingu í þessum efnum og á ráðstefnunni yrði leitast við að greina áhrifin af #metoo. Ég tel að þetta samtal geti hjálpað okkur að bregðast við ákalli kvenna á Íslandi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í tilkynningu

Á fundi nefndarinnar var einnig kynnt úthlutun úr Jafnréttissjóði sem fram fór fyrr um daginn. Þá var vinna dómsmálaráðuneytis við gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali einnig til umræðu á fundinum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert