Undirbúa fjölgun ráðuneyta

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra hyggst, í samráði við félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra, hefja undirbúning að breyttri skipan velferðarráðuneytisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Tveir ráðherrar eru yfir velferðarráðuneytinu, félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra, en í tilkynningunni kemur fram að færa megi rök fyrir að skipting ráðuneytisins í tvö í samræmi við verkaskiptingu ráðherranna geti stuðlað að styrkari stjórnun og markvissari forystu.

Undið ofan af hagræðingu

Velferðarráðuneytið varð til árið 2011, í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna, en þá sameinuðust heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið undir einn hatt og einn velferðarráðherra, Guðbjart Hannesson.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við völdum árið 2013 var ráðherrum ráðuneytisins fjölgað í tvo í samræmi við gamla skiptingu: Heilbrigðismál og félagsmál, og sú skipting hefur haldist síðan þótt ráðuneytið sé enn eitt.

Verði af skiptingunni verður þetta í annað sinn sem hagræðing vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verður afturkölluð. Í maí í fyrra var innanríkisráðuneytinu skipt á ný upp í samgönguráðuneyti og dómsmálaráðuneyti, en þau höfðu verið sameinuð undir nafni innanríkisráðuneytisins árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert