Vonar að ekki þurfi fleiri samstöðufundi

Andrea tendrar ljós.
Andrea tendrar ljós. mbl.is/Valli

Samstöðufundur með ljósmæðrum hófst í Mæðragarðinum við Lækjargötu klukkan korter í fimm. Að fundinum standa meðlimir Facebook-hópsins Mæður og feður standa með ljósmæðrum! en hópurinn telur rúmlega 13.000.

Fundargestir tendruðu ljós ljósmæðrum til heiðurs og ræðupúltið var opið. Auður Bjarnadóttir, eigandi Jógasetursins, leiddi möntru og Bjartey úr hljómsveitinni Ylju söng.

Andrea Eyland, einn stofnenda hópsins, segir fundinn hafa tekist vel til. Tugir manna voru samankomnir: Ljósmæður, foreldrar og börn. Aðspurð segir Andrea engum fulltrúa stjórnvalda hafa verið boðið að þessu sinni. „Við ákváðum að halda friðsamlegan samstöðufund, en það er mögulega eina ráðið að fara að bjóða þeim [stjórnmálamönnum] að koma þar sem við erum. Það virðist allavega vera erfitt að ná til eyrna þeirra,“ segir Andrea.

Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins funda í fyrramálið en það er fyrsti fundurinn eftir að ljósmæður felldu með afgerandi hætti samning, sem nefndirnar höfðu komið sér saman um, 8. júní.

Andrea segist vonast til að ekki þurfi fleiri fundi til og að gengið verði að öllum kröfum ljósmæðra á fundi morgundagsins. 19 ljósmæður hætta að óbreyttu störfum um mánaðamótin en alls eru um hundrað ljósmæður starfandi í landinu og því ljóst að skarðið yrði stórt. „Ég ætla rétt að vona að það þurfi ekki eitthvað hræðilegt að gerast til að ríkisstjórnin taki við sér,“ segir hún.

Andrea er fjögurra barna móðir og eignaðist barn fyrir sex vikum. „Ég er eiginlega orðinn aðdáandi númer eitt,“ segir hún. Að öðru leyti hafi hún enga tengingu við ljósmæður umfram aðra. 

mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert