Bergþór fékk fyrsta laxinn

Reykvíkingur ársins, Bergþór Grétar Böðvarsson, með fyrsta laxinn í Elliðaánum …
Reykvíkingur ársins, Bergþór Grétar Böðvarsson, með fyrsta laxinn í Elliðaánum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór Grétar Böðvarsson er Reykvíkingur ársins og það var hann sem landaði fyrsta laxinum í Elliðaánum í morgun. 

Laxinn reyndist vera um fimm pund en hann beit á hjá Bergþóri í Sjávarfossi aðeins nokkrum mínútum eftir að veiði hófst klukkan sjö.

Bergþór er þjálfari knattspyrnuliðsins FC Sækó en hann starfar hjá batamiðstöðinni hjá Landspítalanum við Klepp. Bergþór þekkir geðfötlun vel af eigin raun og hefur náð miklum bata, segir á vef FC Sækó. 

Við Elliðaárnar í morgun.
Við Elliðaárnar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór hlaut hvatningarveðlaun ÖBÍ í flokki einstaklinga 2011 fyrir að stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri umræðu um geðsjúkdóma á Íslandi.

Þar segir að Bergþór hafi alist upp vesturbæ Kópavogs og æft og spilað fótbolta með Breiðabliki fram til 15 ára aldurs. Bergþór greinist með geðsjúkdóm þegar hann er rétt rúmlega tvítugur. Við tók 10 ára tímabil þar sem hann var meira og minna inni á geðdeild en í kringum aldamótin fór Bergþór að vinna í sínu bataferli með aðstoð notendafélaga eins og Klúbbnum Geysi og Hugarafli, segir ennfremur.

Bergþór Grétar Böðvarsson með fyrsta laxinn á.
Bergþór Grétar Böðvarsson með fyrsta laxinn á. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór hóf svo störf á geðsviði Landspítalans, 2006 sem fulltrúi notenda og talsmaður sjúklinga. Árið 2010 fór hann að vinna hjá Hlutverkasetri og þar varð fótboltaverkefnið geðveikur fótbolti til.

Í samtali viðmbl.is segir Bergþór að þetta sé fyrsti fiskurinn sem hann dregur að landi. Þetta hafi verið skemmtileg en stutt viðureign sem sé eins gott því hann þurfi að mæta í vinnu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri landaði einnig laxi úr Elliðaánum í …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri landaði einnig laxi úr Elliðaánum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór er verkefnastjóri hjá Hlutverkasetri og segir að fótboltaverkefnið hafi fyrst komið til í samtölum við notendur þjónustunnar sem eru búsettir í búsetukjörnum. Rætt hafi verið um að fá starfsmenn til þess að virkja íbúana í að sinna áhugamálum sem þeir sjálfir hafa. „Stundum getur verið erfitt að fá svör um hvað fólk hafi áhuga á en áhugi getur smitað út frá sér. Til að mynda áhugi á tónlist, hlaup, dans, veiði eða fótbolti,“ segir Bergþór. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Svo vildi til að á þessum fundi var starfsmaður sem hefur áhuga á fótbolta. „Ég sagði strax já bara endilega og við drifum okkur í að spila fótbolta einu sinni í viku, á mánudögum,“ segir Bergþór en liðið, FC Sækó spilar enn á mánudögum og hefur bætt í og æfir tvisvar í viku.

Árið 2012 var meira kapp lagt í verkefnið og samstarfi komið á við Skota sem ráku svipaða knattspyrnuklúbba. Árið 2016 fórFCSækó til Englands að keppa og allir þeir sem voru virkir í félaginu fóru með. 

Fyrsti lax ársins í Elliðaánum.
Fyrsti lax ársins í Elliðaánum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór segir að FC Sækó keppi bæði innanhúss sem utan og knattspyrnumót haldin á hverju sumri og vetri. Í ár hefur liðið farið til Noregs að keppa og að sögn Bergþórs skipta ferðalög sem þessi miklu máli og þetta eru jafnvel fyrstu utanlandsferðir þeirra sem eru með liðinu.

„Áhuginn skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Bergþór og það hafi vakið athygli hversu mikill áhuginn er hér á landi. „Hér mæta kannski 20 að spila fótbolta og 10-15 að horfa á. Þetta skiptir okkur miklu máli og hugsaðu þér þá sigra sem fólk er að ná í þessu starfi,“ segir Bergþór. 

Spjallað við veiðihúsið við Elliðaárnar.
Spjallað við veiðihúsið við Elliðaárnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert