EFTA-ráðherrar á Sauðárkrók

Kristinn F. Árnason, framkvæmdastjóri EFTA, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Monica …
Kristinn F. Árnason, framkvæmdastjóri EFTA, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Monica Mæland, þáv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Johann N. Schneider-Ammann, efnahags- og menntamálaráðherra Sviss, á sumarfundi EFTA á Svalbarða fyrir ári. Ljósmynd/EFTA

Árlegur sumarfundur EFTA-ríkjanna verður haldinn 25. júní næstkomandi á Sauðárkróki. Fundinn sækja ráðherrar, þingmenn og samstarfsaðilar aðildarríkja EFTA, en Ísland fer með formennsku í EFTA og mun Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, stýra fundinum. Þetta segir tilkynning send fjölmiðlum frá Utanríkisráðuneytinu.

Ásamt Guðlaugi Þór mun Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, og Johann N. Schneider-Ammann, efnahags- og menntamálaráðherra Sviss, sækja fundinn í næstu viku.

Samkvæmt dagskrá eiga ráðherrarnir fund með þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA, en efst á baugi mun vera staða og horfur EES, fríverslunarsamningar EFTA og samskipti Sviss og Evrópusambandsins. Þá verða fulltrúar EFTA-dómstólsins einnig á fundinum ásamt fulltrúum eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.

Hefð er fyrir því að nýir fríverslunarsamningar séu undirritaðir og/eða endurnýjaðir á sumarfundum EFTA og er gefið í skyn í tilkynningu utanríkisráðuneytisins að slíkt gæti verið á dagskrá fundarins, en EFTA býr yfir neti fríverslunarsamninga sem er með þeim stærstu í heimi.

Mynd/EFTA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert