Japanir tóku til eftir sig í stúkunni

Japanskir áhorfendur tóku til eftir sig í stúkunni að leik …
Japanskir áhorfendur tóku til eftir sig í stúkunni að leik loknum. AFP

Aðdáendur japanska knattspyrnuliðsins sem knúði fram sigur í spennandi leik gegn Kólumbíu í gær hafa vakið talsverða athygli fyrir að taka sér tíma eftir leikinn til þess að hreinsa til í stúkunni eftir sig.

Líkt og BBC greinir frá er alvanalegt að stúkurnar séu skildar eftir í mikilli óreiðu matarafganga, umbúða og glasa eftir spennandi leiki sem þessa. Það varð þó ekki raunin eftir 2:1 sigur Japana á Kólumbíu, sem var jafnframt fyrsti sigur Japana gegn suður-amerísku liði.

Eftir leikinn hófu japanskir aðdáendur að tína upp rusl í sætaröðum sínum í stóra ruslapoka sem þeir höfðu sjálfir tekið með sér til þess að skilja við svæðið eins hreint og þeir komu að því.

Japanir eru jafnan þekktir fyrir kurteisi sína og í samtali við BBC sagði blaðamaðurinn frá Japan að þetta væri ekki aðeins partur af fótboltamenningu heldur af japanskri menningu. Það kom honum ekki á óvart að aðdáendurnir hefðu tekið til í stúkunni eftir sig. „Maður heyrir oft sagt að fótbolti endurspegli menningu. Það er mikilvægur partur af japanskri menningu að ganga úr skugga um að allt sé hreint og það á við á öllum íþróttaviðburðum og að sjálfsögðu líka á fótboltaleikjum.“

Framherji Japana fagnar með þjálfara og varamannabekk eftir seinna mark …
Framherji Japana fagnar með þjálfara og varamannabekk eftir seinna mark liðsins. AFP
Að fagnaðarlátum í leikslok tóku Japanir að hreinsa til í …
Að fagnaðarlátum í leikslok tóku Japanir að hreinsa til í stúkunni eftir sig. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert