Meirihluti leyfisskyldrar útleigu leyfislaus

Ólafur Heiðar Helgason greindi frá niðurstöðum greiningar Íbúðalánasjóðs á skammtímaleigu
Ólafur Heiðar Helgason greindi frá niðurstöðum greiningar Íbúðalánasjóðs á skammtímaleigu Ljósmynd/Íbúðalánasjóður

Meirihluti leyfisskyldrar útleigu til skamms tíma virðist leyfislaus samkvæmt greiningu hagdeildar Íbúðarlánasjóðs. Þá hægir verulega á vexti framboðs húsnæðis til skammtímaleigu og vöxtur tekna af skammtímaleigu í gegnum Airbnb hefur verið mun minni fyrstu mánuði þessa árs en undanfarin ár.

Þetta kom fram á hádegisfundi Íbúðalánasjóðs sem haldinn var í dag. Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, kynnti niðurstöður nýrrar greiningar á áhrifum skammtímaleigu á húsnæði.

Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að Airbnb-útleiga sé mest áberandi í 101 Reykjavík, hefur hlutfall landsbyggðarinnar farið vaxandi. Þriðjungur Airbnb íbúða er utan höfuðborgarsvæðisins, en var 10% árið 2016.

Leigusalar græða meira á skammtímaleigu

Um 1.500 íbúðir eða herbergi eru í það mikilli skammtímaleigu að það nýtist ekki sem íbúðahúsnæði. Skammtímaleiga er mest áberandi innan póstnúmersins 101 og eru þar 5% íbúða sem ekki er nýtt sem íbúðahúsnæði vegna umfangsmikillar skammtímaleigu.

Greining hagdeildarinnar segir að um 5-6% hækkun meðalfermetraverðs megi rekja til aukinnar skammtímaleigu, en jafnframt að orsakasamhengið sé erfitt að rekja.

Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar gefa þinglýstir leigusamningar um 200 þúsund krónur í tekjur (ekki er tekið tillit til skatta og annars kostnaðar) fyrir leigusala á mánuði innan 101 og 107 Reykjavík. Skammtímaleiga á sama svæði  gefur um 600 þúsund í tekjur á mánuði að undanskildum sköttum og öðrum kostnaði.

Skráning gistirýma ábótavant

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi á síðasta ári ber að skrá allt leiguhúsnæði. Húsnæði sem leigt er út til skamms tíma í 90 daga á ári eða færri og gefur af sér 2 milljónir króna eða minna á ári ber að skrá hjá sýslumanni. Ekki er mikil fyrirhöfn að framkvæma slíka skráningu að sögn Ólafs Heiðars, sem flokkast undir heimagistingu.

Sé skammtímaleiga umfram fyrrnefnd mörk telst það leyfisskyld gististarfsemi og er krafist rekstrarleyfis.

Vísbendingar eru um að veruleg frávik eru í skráningum rýma í skammtímaleigu. Um sex þúsund virkar skráningar eru á Airbnb, þar af eru um 4.700 skráningar í íbúðarhúsnæði. Hinsvegar eru aðeins um 13 hundruð skráðar heimagistingar hjá sýslumanni og um 12 hundruð skráningar skammtímaleigu í atvinnuskyni. Innan við helmingur íbúðarhúsnæðis í skammtímaleigu er því skráð með tilskyldum hætti.

Leggur til umbætur

Ólafur Heiðar sagði á fundinum að þörf væri á að bæta upplýsingaflæði til þess að ná tökum á skammtímaleigu íbúða, til að mynda með samkomulagi við Airbnb um upplýsingamiðlun. Hann nefndi að fleiri hvatar þurfa að vera til staðar fyrir leigusala svo að reglum um umfangsmikla skammtímaleigu sé fylgt. Einnig lagði Ólafur Heiðar áherslu á að eftirlit yrði eflt og að samhæfing eftirlitsaðila yrði bætt.

Hagfræðingurinn velti í lok fundar upp spurningum um hvernig væri hægt að framfylgja takmörkunum á skammtímaleigu. Í máli hans kom fram að hægt væri að setja takmarkanir með erfiðum, en hann nefndi þó nokkrar útfærslur takmarkana. Hægt væri að setja einhvern hámarksfjölda íbúða eða hámarksfjölda eigna á vegum leigusala í skammtímaleigu. Jafnframt nefndi hann mögulegt gjald á íbúðir þar sem enginn hefur skráð lögheimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert