Mikil fjölgun katta vegna húsnæðisvanda

Köttum hefur fjölgað mikið í Kattholti síðastliðinn mánuð vegna húsnæðisvanda …
Köttum hefur fjölgað mikið í Kattholti síðastliðinn mánuð vegna húsnæðisvanda eigenda. Mynd/Kattholt

Algjör sprenging hefur orðið í pöntunum á Hótel Kattholt og er hótelið nú fullbókað, mun fyrr en síðustu ár. Halldóra Snorradóttir, starfsmaður í Kattholti, segist tengja það beint við leiðinlegt veðurfar hér á landi það sem af er sumri, en fólk virðist flykkjast til útlanda í von um að hafa uppi á sólinni.

„Það er alveg fullbókað hérna á hótelinu og fyrr en vanalega. Við höfum ekki enn þá fundið fyrir því að fólk sé að fara í frí og skilja kisurnar eftir, fólk er frekar að nota hótelið sem er mjög jákvætt,“ segir Halldóra, en greint var frá því síðasta sumar að óvenjumikið væri um það að kattaeigendur skildu dýrin sín eftir í reiðileysi þegar þeir færu í sumarfrí. Dýrin voru þá einfaldlega læst úti og áttu að sjá um sig sjálf. Þá virtust eigendur hafa lítinn áhuga á því að fá dýrin aftur þegar þeir sneru heim úr fríinu.

Köttum fjölgar hins vegar alltaf í Kattholti yfir sumartímann og segir Halldóra það enn geta gerst að þau fái til sín heimilisketti sem einfaldlega hafi verið læstir úti á meðan heimilisfólkið fer í frí. Hún vonast þó til að vakning hafi orðið og að fólk sé frekar að nýta sér hótelið. „Það kemur oft aðeins seinna, en vonandi heldur þetta áfram eins og staðan er núna,“ segir hún vongóð.

Aðstoða kattaeigendur í neyð

Síðustu vikur hefur vandamálið verið af öðrum toga, því Kattholt hefur verið að taka við óvenjumörgum köttum vegna húsnæðisvanda eigenda. Vandamálið er reyndar ekki nýtt af nálinni, en það hefur aukist mikið síðastliðinn mánuð. „Það er mikið af kisum að koma til okkar vegna húsnæðisvanda eigenda, þetta er þá fólk sem er að missa leiguhúsnæði og leitar til okkar í neyð. Fólk fær ekki leyfi fyrir gæludýrahaldi í nýju húsnæði. Svo leitar líka til okkar fólk sem hefur safnað að sér mörgum köttum og lendir í vanda.“

Þessir kettlingar dvelja í góðu yfirlæti í Kattholti, en leita …
Þessir kettlingar dvelja í góðu yfirlæti í Kattholti, en leita að nýju heimili. Mynd/Kattholt

Að sögn Halldóru hefur Kattholt aðallega verið að taka við týndum og yfirgefnum köttum, en ekki köttum af heimilum. „Við höfum samt reynt að gera það þegar fólk er í mikilli neyð. Þá tökum við dýrin til okkar og finnum þeim nýtt heimili. Fólk er oft voða fegið að fá hjálp með þetta.“ 

Halldóru finnst reyndar að leigusalar mættu gjarnan vera aðeins sveigjanlegri með það að leyfa gæludýr. „Það verður að gefa fólki meiri kost á að hafa dýrin hjá sér í leiguhúsnæði, en fólk verður líka að hugsa fram í tímann þegar það er í leiguhúsnæði, að fá sér ekki dýr. Bíða frekar þangað til það er komið í fast húsnæði því dýrin geta lifað í fimmtán ár eða meira.“

Fólk tilbúnara að fá sér eldri ketti

Yfirleitt er auðveldara að finna kettlingum nýtt heimili heldur en eldri köttum, en Halldóra segist finna fyrir sérlega gleðilegri þróun í þeim efnum. „Fólk er frekar að taka eldri kisur að sér en var hérna fyrir örfáum árum. Þá var fólk mest að hugsa um að fá sér kettlinga. Núna velur fólk sér eldri kisur því þá veit það betur hvernig karakterinn er. Veit að það er ekki að fá kisu sem er að fara í gardínurnar eða sófasettið eða eitthvað slíkt. Okkur gengur mjög vel að finna fullorðnum köttum heimili núna og það er ótrúlega gleðilegt.“

Hún hvetur fólk sem er að hugsa um að fá sér kött til að kíkja til þeirra í sumar því þetta er annasamasti tími ársins og mörg dýr sem vantar gott heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert