Skór Gylfa hjálpuðu Kvennaathvarfinu

Frá vinstri: Guðný Pálsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson og Elísabet …
Frá vinstri: Guðný Pálsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson og Elísabet Sveinsdóttir við afhendingu skóparsins. Ljósmynd/Aðsend

Takkaskór Gylfa Þórs Sigurðssonar, leikmanns íslenska landsliðsins í knattspyrnu og Everton, skiluðu Kvennaathvarfinu 200 þúsund krónum eftir að þeir voru keyptir á uppboði sem Á allra vörum stóð fyrir í september á síðasta ári.

Það var Keiluhöllin í Egilshöll sem bauð hæst í skóna og voru þeir afhentir formlega á dögunum. Þeim hefur verið komið fyrir í glerkassa í Keiluhöllinni.

„Það er virkilega gaman að leggja góðum málefnum lið og enn betra þegar hægt er að gera það með jafnskemmtilegum hætti og nú. Skórnir hans Gylfa eiga svo sannarlega skilið að vera á heimavelli Íslands – á Íslandi og sóma sér vel í Höllinni,“ er haft eftir Sigmari Vilhjálmssyni, framkvæmdarstjóra Keiluhallarinnar, í tilkynningu sem Á allra vörum sendi frá sér.

„Strákarnir Simmi og Jói hafa alltaf stutt við bakið á okkur stöllum í öllum okkar átökum í gegnum tíðina. Það er líka alltaf gaman að vinna með jákvæðu fólki og skiptir okkar söfnun verulegu máli að eiga góða að,“ segir Gróa Ásgeirsdóttir, ein af forsvarskonum Á allra vörum, í tilkynningunni.

Á síðasta ári beindi Á allra vörum sjónum sínum að starfsemi Kvennaathvarfsins og hóf söfnunarátak fyrir byggingu nýs húsnæðis fyrir konur og börn þeirra, sem eiga ekki í öruggt skjól að venda að lokinni dvöl í athvarfinu. Átakið tókst vel og söfnuðust yfir 80 milljónir króna.

„Vonandi verður fyrsta skóflustungan tekin núna í haust,“ sagði Elísabet Sveinsdóttir, ein forsvarskvenna Á allra vörum, í samtali við fréttastofu mbl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert