Vaðlaheiðargöng líklega ekki opnuð í ár

Valgeir Bergmann.
Valgeir Bergmann. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ný drög að verkáætlun Vaðlaheiðarganga gera ekki ráð fyrir að göngin verði opnuð fyrr en í janúar á næsta ári en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir að göngin yrðu opnuð í sumar. Fréttablaðið greinir fyrst frá.

Í apríl í fyrra var slegið í gegn og sprengingum þá lokið. Gert var ráð fyrir að eftirvinnsla tæki rúmt ár, göngin yrðu malbikuð í júlí og september og opnuð strax í kjölfarið. 

Ljóst er að ekki verður af því, en samkvæmt nýrri verkáætlun, sem Vaðlaheiðargöng hf. eiga þó enn eftir að samþykkja, er gert ráð fyrir að göngin verði klár um miðjan janúar.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að verktakinn Ósafl, sem er í eigu ÍAV, hafi komið fram með drög að uppfærðri áætlun þar sem fram komi verulegar seinkanir miðað við fyrri áætlanir. „Við erum eðlilega ekki sáttir við slíkar tafir,“ segir Valgeir. Ekki hafi enn fengist skýringar á því hvað veldur töfunum en það eigi eftir að skýrast á næstunni.

Valgeir segir ekkert sérstakt hafa komið upp á við vinnuna. „Ekkert í líkingu við það sem truflaði gröftinn,“ segir Valgeir og vísar í vatnsæðarnar sem fundust við borun árið 2014. Hann ítrekar að ný verkáætlun sé enn ósamþykkt og segist enn vonast til að göngin verði opnuð á þessu ári. „En það er orðið dálítið tæpt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert