Vilja bæta aðstæður fyrrum fanga

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið mbl.is/Golli

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem fjalla á um leiðir til að bæta félagslegar aðstæður þeirra sem hafa lokið afplánun fangelsisdóma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Hlutverk starfshópsins er meðal annars að koma með tillögur um hvernig styðja má betur fyrrum fanga til þátttöku í samfélaginu, auka virkni þeirra til atvinnuþátttöku og/eða til náms og draga úr endurkomutíðni í fangelsi, auk þess að lækka hlutfall þeirra sem verða öryrkjar eða lenda í félagslegum vandamálum.

„Þetta er brýnt samfélagsverkefni. Það er skelfilegt ef fólk sem fer út af sporinu en vill svo gjarna snúa við blaðinu í kjölfar afplánunar fær ekki til þess stuðning og tækifæri,“ segir Ásmundur Einar.

Hann veitti í dag Afstöðu, félagi fanga, 250.000 króna styrk til að efla úrræði fyrir fanga og fjölskyldur þeirra eftir afplánun.

Hópinn skipa:

  • Þorlákur Morthens, formaður
  • Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðherra
  • Ragnheiður Bóasdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra
  • Guðmundur Ingi Þóroddsson, tilnefndur af Afstöðu
  • Jón Þór Kvaran, tilnefndur af Fangelsismálastofnun
  • Sigrún Þórarinsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Laufey Gunnlaugsdóttir, tilnefnd af Vinnumálastofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert